Stórtækt rússneskt peningaþvætti afhjúpað

21.03.2017 - 03:41
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Rússneskir glæpamenn nýttu þjónustu margra af stærstu bönkum Evrópu við að þvætta himinháar peningaupphæðir. Um þetta er fjallað í nokkrum helstu dagblöðum Evrópu. Peningaþvættið átti sér stað tæplega fjögurra ára tímabili, frá ársbyrjun 2011 fram í október 2014. Samanlagt voru 20,8 milljarðar bandaríkjadala þvættir frá 19 rússneskum bönkum. Peningurinn fór til ríflega fimm þúsund fyrirtækja sem voru með reikninga í yfir sjö hundruð bönkum í tæplega hundrað ríkjum.

Gögnum um bankareikninga og fyrirtækjanet utan um peningaþvættið var komið til rússneska dagblaðsins Nowaja Gaseta og samtakanna OCCRP, en þau fjalla um spillingu og skipulagða glæpastarfsemi. Undanfarna mánuði hefur 61 blaðamaður í 32 löndum unnið að rannsókn málsins.Talið er að heildarupphæðin nemi um 20 milljörðum Bandaríkjadala, sem jafngildir um 2160 milljörðum króna. Guardian bendir þó á að upphæðin geti jafnvel verið fjórfalt hærri  80 milljarðar dala.

17 breskir bankar tengjast peningaþvættinu, þeirra á meðal HSBC, Royal Bank of Scotland, Lloyds, Barclays og Coutts. Samanlagt fóru tæplega 740 milljónir dala í gegnum breska bankareikninga. Flest skúffufyrirtækjanna sem tengdust peningaþvættinu voru skráð af Fyrirtækjastofnun í Lundúnum. Stærstur hluti þeirra fyrirtækja sem eru til rannsóknar hafa verið leyst upp.

Mynd með færslu
 Mynd: EBU

Guardian bar færslurnar undir bankana og fékk þau svör að oft sé upplýsingaflæði á milli einkafyrirtækja og opinberra stofnana ábótavant, og því vanti bankanum oft þær upplýsingar sem til þarf. Þeir séu þó tilbúnir til þess að berjast gegn fjármálaglæpum og peningaþvætti.

L. Burke Files, sem vinnur við að rannsaka fjármálaglæpi á alþjóðavísu, segir gögnin sýna fram á vanmátt innri rannsóknardeilda bankanna. Þær séu óvelkomnar innan bankans og starfsmenn þeirra séu oft með léleg laun, án þekkingar og menntunar og fái enga þjálfun í að átta sig á glæpamynstri. Hann segir flest málin sem Guardian hafði undir höndum hafa krafist talsverðar reynslu. Þetta séu ekki einstakar færslur heldur endurtekið mynstur.

Eftirlitsdeildir brugðust alls staðar

Sueddeutsche Zeitung, stærsta dagblað Þýskalands, segir að minnst 27 þýskir bankar hafi farið með fé sem flutt var til Evrópu í gegnum „rússneska þvottahúsið". Þeirra á meðal séu stórbankarnir Deutsche Bank og Commerzbank. Samanlagt hafi um 66,5 milljónir dala farið í gegnum þýska banka. Commerzbank vildi ekki veita Sueddeutsche svör, en talsmaður Deutsche Bank sagði innra eftirlit bankans hafa verið styrkt umtalsvert. Frá árinu 2015 væri búið að ráð eitt þúsund starfsmenn í rannsóknardeild bankans.

Deutsche Bank, skilti.
 Mynd: blu-news.org  -  Flickr

 

Sueddeutsche greinir einnig frá því að Deutsche Bank hafi stundað viðskipti við lettneska Trasta bankann allt þar til í ágúst 2015. Þá varaði fjármálaeftirlit Lettlands Deutsche við því að lán frá bankanum væru áhættusöm og gætu skaðað orðspor bankans. Bandaríski bankinn JP Morgan Chase hætti viðskiptum við lettneskar fjármálastofnanir 2013 eftir þrýsting frá bandarískum fjármálaeftirlitsstofnunum.

Í Berlingske Tidende var sagt frá því hvernig jafnvirði um 110 milljarða króna voru millifærðar frá Moldóvíu og Lettlandi til danskra banka, og áfram í skattaskjól. Haft var eftir sérfræðingi í bankastarfsemi að ekki sé hægt að finna neina eðlilega ástæðu fyrir millifærslum sem þessum. Því sé furðulegt að bankar og yfirvöld hafi ekki bundið enda á viðskiptin, heldur leyft þeim að viðgangast.

Þá voru um 600 milljónir dala lagðar inn á bankareikninga hjá alls 45 bönkum í Sviss, að því er fram kemur í umfjöllun svissneska dagblaðsins Beobachter. Í dagblaðinu er því lýst hvernig breskt skúffufyrirtæki millifærði að jafnaði um eina milljón dala á degi hverjum úr viðskiptabönkum í Moldóvu og Lettlandi, inn á reikninga í Sviss. Þetta var gert um 75 sinnum, alltaf með sömu skýringum. Skúffufyrirtækið hefur nú verið afskráð; lettneski bankinn er gjaldþrota; og sakamálarannsókn hafin á þeim moldóvska.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock

 

Þeir stórtækustu

Þrír rússneskir viðskiptajöfrar voru stórtækastir í þvættinu. Leki Panamaskjalanna í fyrra færði rannsóknarblaðamönnum OCCRP nöfn þeirra á silfurfati, en þar sést svart á hvítu að þeir tengjast nokkrum skúffufyrirtækjum sem eiga aðild að þessu stóra peningaþætti.

Einn þeirra var Alexey Krapivin. Hann er eigandi tveggja fyrirtækja sem hlutu samanlagt 277 milljónir dala í gegnum fléttuna á reikninga sína í CBH bankanum í Sviss. Faðir Krapivins var náinn samstarfsmaður Putins forseta á sínum tíma, en hann lést árið 2015. Krapivin fjölskyldan sat í forsæti verktaka- og bankaveldis, en flest fyrirtækin sem héldu utan um starfsemina virtust skúffufyrirtæki með sýndareigendum.

Georgy Gens fékk 27 milljónir á reikninga skúffufyrirtækis síns í svissneska UBS bankanum á árunum 2013 og 2014. Hann er eigandi Lanit group, upplýsingatæknirisa í Rússlandi sem er dreifingaraðili framleiðenda á borð við Apple, Samsung, ASUS og fleiri tölvufyrirtækja. Rússneska ríkið er einn stærstu viðskiptavina Lanit.

Sergey Girdin fékk nærri 96 milljónir dala á reikning skúffufyrirtækis síns í UBS bankanum. Girdin er heiðursræðismaður Rússlands í Gíneu og eigandi upplýsingatæknifyrirtækisins Marvel. Einn mikilvægasti viðskiptavinur þess er Sberbank, stærsti lánveitandi Rússlands.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Frá Moskvu.

 

Svona fóru þeir að:

Á vef OCCRP er ferli peningaþvættisins greint nákvæmlega. Rússneskir aðilar byrjuðu á því að stofna tvö skúffufyrirtæki utan Rússlands. Annað fyrirtækið, sem við getum nefnt fyrirtæki A, er gert að lánveitanda og er látið sýnast sem svo að það láni hinu fyrirtækinu, fyrirtæki B, pening. Fyrirtæki B skrifar undir samning og lofar því að borga peninginn til baka, en enginn raunverulegur peningur fór á milli fyrirtækjanna. Rússneskt fyrirtæki sem bjó til samninginn tekur ábyrgð á skuldinni. Moldóvskur einstaklingur átti aðild að öllum samningum, sem skiptir höfuðmáli upp á framhaldið.

Fyrirtæki B stendur ekki í skilum á skuld sinni, sem leiðir til þess að fyrirtæki A krefur rússneska fyrirtækið um fjárhæðina. Þar sem moldóvskur einstaklingur er ábyrgðarmaður samningsins að hluta, fer skuldin fyrir moldóvska dómstóla. þar eru spilltir dómarar notaðir til þess að gefa út tilskipun þess efnis að rússneska fyrirtækið verði að endurgreiða skuldina. Dómstóllinn skipar skiptastjóra sem sér um millifærsluna. Hann opnar reikning í moldóvska bankanum Moldindconbank, sem rússneska fyrirtækið greiðir inn á, og gerir þar með upp tilbúnu skuldina.

Rússneskt fjármagn er þar með komið inn í Moldindconbank, vottað af moldóvskum dómstólum, og tilbúið til notkunar. Að sögn OCCRP fer eitthvað af peningnum í að verla munaðarvörur, en talsverð fjárhæð fer áfram í lettneska bankann Trasta Komercbanka, þaðan sem það er flutt í fjölda skúffufyrirtækja um allan heim. Trasta missti starfsleyfi sitt í fyrra sökum peningaþvættis að sögn Maija Treija, aðstoðar-fjármálaráðherra Lettlands.

 

epa04888302 Russian President Vladimir Putin (R) looks out from a bathyscaphe while submerging to see an ancient vessel which sank at the a 83-meter depth in the Black sea outside Sevastopol, Crimea, 18 August 2015, during the Russian Geographical Society
Pútín í kafbátnum á Svartahafi í dag.  Mynd: EPA  -  RIA NOVOSTI POOL

 

Tengsl Pútíns víða

Reikningar í 19 rússneskum bönkum voru notaðir. Árið 2014 birtust fregnir af því að einn bankanna hafi verið RZB bankinn, þar sem Igor Putin, frændi forsetans Vladimir Putin, var meðal stjórnarmanna. Samkvæmt rannsakendum voru nærri tíu milljarðar dala færðir af reikningum RZB yfir til Moldindconbank. Þaðan var peningurinn færður til Lettlands.

Alexander Grigoriev, bankastjóri RZB, var handtekinn í Moskvu 2015, ári eftir að bankanum var lokað vegna ásakana um peningaþvætti. Hann neitar allri sök og segist heiðarlegur ríkisborgari. Hann er enn í fangelsi út af öðru máli.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV