Stormur fram undir morgun

15.05.2017 - 22:33
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan
Það verður stormur undir Eyjafjöllum og í Öræfum fram á nótt, fimmtán til 25 metrar á sekúndu, og fer ekki að draga úr vindi fyrr en undir morgun. Austan- og norðaustanátt verður á landinu, víðast tíu til átján metrar á sekúndu og víða rigning. Á morgun verður hægari austlæg eða breytileg átt, fimm til þrettán metrar á sekúndu síðdegis og skýjað með köflum en sums staðar skúrir.

Seint annað kvöld bætir aftur í vind og úrkomu norðantil á landinu. Hiti verður frá sex að fimmtán stigum. 

Veðurhorfur næstu daga eru þannig að á miðvikudag verður ákveðin norðanátt og kólnar í veðri. Hvassast verður norðvestantil og þar verður að auki slydda. Á fimmtudag dregur úr vindi og úrkomu og hitastig fer hækkandi. Á föstudag verður komið hæglætisveður og víða bjart. Síðan fremur hlýtt í veðri og væta með köflum en lengst af þurrt fyrir norðan.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV