Stórkostlegt poppbíó með hjartað á réttum stað

10.05.2017 - 11:27
Kvikmyndarýnir Lestarinnar segir að það sem geri Guardians of the Galaxy að stórkostlegu poppbíói og listrænni meginstraumsmynd sé hugmyndaflugið. Myndin sé stútfull af furðulegum senum sem sýna fram á grípandi stjónrænan stíl leikstjórans, en grunnurinn sé þó vel byggðar persónur með hjartað á réttum stað.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Það er nóg af kosmísku litabrjálæði og furðu í nýjustu mynd Marvel-smiðjunnar, Guardians of the Galaxy vol. 2, eða Varðmenn vetrarbrautarinnar, annar hluti. Hér segir frá áframhaldandi ævintýrum óvenjulega hetjuliðsins sem við kynntumst í fyrri myndinni, sem inniheldur meðal annars krúttlegt lifandi tré, byssu- og tæknióðan manngerðan þvottabjörn, dóttur ofurillmennis, bardagamanns sem skilur ekki íroníu og jarðarbúa sem er mögulega af hálfu guðakyni.

Fyrri myndin snerist að miklu leyti um að kynna persónurnar til leiks, sýna þau mynda vinabönd og stilla þeim upp sem gengi. Þessi annar hluti tekur við þeim sem fullbúnum hópi og heldur áfram að þróa persónurnar, rýna í togstreitu þeirra á milli og vandamál hvers og eins – á meðan þau berjast gegn stórfurðulegum ófreskjum og illmennum í poppaðri og litríkri geimóperu.

Áhrif frá popplist og sækadelíu

Eitt af því sem gerði fyrri myndina svo góða og eftirminnilega var einmitt hversu mjög hún kom öllum í opna skjöldu. Hér var ofurhetjuteymi sem enginn nema hörðustu myndasögunjerðir könnuðust við, stórundarlegar aðalpersónur í kosmískum ævintýraheimi sem spratt greinilega upp úr popplist og sækadelíu sjöunda og áttunda áratugarins, full af gamalli poppmúsík og nútímahasar. Framhaldið gefur okkur meira af því sama, en líður að vissu leyti fyrir það að óvænti þátturinn er ekki lengur til staðar.

Mynd með færslu
 Mynd: Guardians of the Galaxy

Skiljanlega nær hún ekki að endurskapa upplifunina sem fylgdi því að kynnast þessum undraheimi í fyrsta sinn, og auðvitað ósanngjarnt að ætla að gagnrýna framhaldsmynd út frá þeim forsendum. En þótt það dragi myndina dálítið niður þá skartar framhaldið nógu mikilli furðu og sköpunargleði til að standa á eigin fótum.

Gleði og húmor í forgrunni

Myndin náði mér strax í upphafsatriðinu, þar sem rosalegur bardagi á sér stað á milli teymisins og ófreskju úr annarri vídd – sem myndi alveg sóma sér sem lokabardagi í hefðbundinni hasarmynd, en hér færist sjónarhornið alfarið yfir á litla trjámanninn Groot hlustandi á tónlist í forgrunni og hasarinn endar sem bakgrunnsskraut. Þetta setur á sinn hátt tóninn fyrir Guardians of the Galaxy 2 í heild sinni, því hún forgangsraðar húmor og gleði umfram hasar og stórbardaga. Hún stendur þó ekki alveg við þetta loforð, því endrum og sinnum fellur hún ofan í þreyttar klisjur ofurhetjumyndanna og að sama skapi á hún til að ganga of langt með grínið og glensinn, svo brandarar verða stundum fyrirsjáanlegir og óþarfir.

Mynd með færslu
 Mynd: Guardians of the Galaxy

En það sem gerir Guardians of the Galaxy að stórkostlegu poppbíói og í raun merkilega listrænni meginstraumsmynd er hugmyndaflugið, því myndin er stútfull af undursamlega furðulegum senum sem sýna fram á grípandi sjónrænan stíl leikstjórans James Gunn, enda virðist hann hafa fengið að ráða ansi miklu miðað við það sem gengur og gerist í álíka bransamyndum.

Súrrealísk og víruð með hjartað á réttum stað

Húmorinn og sköpunargleðin væri þó innantóm til lengdar ef ekki væri fyrir persónurnar og varðmennirnir sjálfir halda myndinni uppi. Það er gaman að sjá hversu miklu púðri er eytt í að þróa gengið sem persónur – jafnvel of miklu, því allir fá sínar sögur og stundum ber það myndina næstum ofurliði. Undir litríku og tölvugerðu yfirborðinu eru nefnilega manneskjur af holdi og blóði, þótt þær séu tæknilega geimverur og dýr og tré. Leikstjórinn virðist vita að til að fá mynd eins og þessa til að virka má ekki gera lítið úr persónunum eða umbreyta þeim í skrípamyndir, því sama hversu víruð og súrrealísk myndin leyfir sér að vera er hjartað alltaf á réttum stað.