Stór skjálfti í Norðvestur-Kína

09.08.2017 - 01:40
Mynd með færslu
 Mynd: USGS
Jarðskjálfti af stærðinni 6,3 skók strjálbýl héruð í norðvesturhluta Kína laust fyrir hálftólf á þriðjudagskvöld að íslenskum tíma, eða hálf átta að morgni á staðartíma. Upptök skjálftans voru á 25 kílómetra dýpi, nærri landamærunum við Kasakstan. Nokkrir kraftmiklir eftirskjálftar hafa orðið, þar af tveir yfir 5 að stærð. Engar fregnir hafa borist af manntjóni eða tjóni á mannvirkjum. Tíu stundum fyrr reið skjálfti af stærðinni 6,5 yfir Sichuan-hérað í miðju Kína með skelfilegum afleiðingum.

Níu dauðsföll hafa verið staðfest en óttast er að yfir 100 hafi látið lífið í skjálftanum og vitað að hátt í 200 slösuðust alvarlega en þúsundir hlutu minni áverka. Sérfræðingar Hamfaravarnastofnunar Kína áætla að allt að 130.000 byggingar hafi skemmst í skjálftanum í Sichuan.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV