SÞ: Áhyggjur af stöðu mannréttinda í Venesúela

08.08.2017 - 12:10
epa06111691 Members of the Bolivarian National Guard (GNB) fire their weapons while facing a group of demonstrators during a protest as part of a general strike convened by the opposition in Caracas, Venezuela, 26 July 2017. Venezuelan security forces and
 Mynd: EPA  -  EFE
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna lýsir yfir áhyggjum af kerfisbundnu og gegndarlausu ofbeldi sem mótmælendur í Venesúela eru beittir. Það kveðst hafa heimildir fyrir því að öryggissveitir hafi orðið tugum mótmælenda að bana. Stjórnarandstæðingar hvetja til allsherjarverkfalls og mótmæla gegn stjórnvöldum í dag.

Pyntingar og morð

Mannréttindaráðið í Genf sendi í dag frá sér yfirlýsingu, þar sem stofnunin lýsir yfir vanþóknun sinni á ofbeldinu sem stjórnarandstæðingar í Venesúela eru beittir.  Þar segir að rannsókn hafi leitt í ljós að öryggissveitir stjórnvalda hafi orðið að minnsta kosti 46 mótmælendum að bana síðustu mánuði. Þá hafi starfsmenn mannréttindaráðsins komist að því í viðtölum við mótmælendur að öryggissveitirnar ráðist inn í hús og handtaki fólk af handahófi, pynti það og beiti annarri illri meðferð. Viðtölin voru tekin í júní og júlí, til að kanna stöðu mannréttindamála í landinu.

Hvatt til allsherjarverkfalls

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Venesúela hvetja fólk til að leggja niður störf á hádegi í dag, flykkjast út á götur og stræti, sem víðast um landið, stöðva umferð og taka þannig þátt í mótmælum gegn Nicolas Maduro og stjórn hans. Mótmæli sem efnt var til á föstudag þóttu mislukkuð, þar sem mun færri tóku þátt í þeim en vonast hafði verið eftir. Þá var mótmælt kosningum til stjórnlagaþings, sem stjórnarandstæðingar segja að hafi verið ólöglegar og stríði gegn stjórnarskrá landsins. Á stjórnlagaþinginu sitja eingöngu stuðningsmenn Maduros forseta.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV