Stefni í viðvarandi kennaraskort næstu árin

10.08.2017 - 22:36
Þrátt fyrir að skortur sé á kennurum í grunnskólum hefur umsóknum um undanþágur til að ráða ómenntaða kennara fækkað frá því í fyrra. Hlutfall ómenntaðra kennara hefur lækkað úr 20 prósentum í 7 frá aldamótum. Forstjóri Menntamálastofnunar segir að grípa þurfi til róttækra aðgerða því það stefni í viðvarandi kennaraskort.

 

Formaður Skólastjórafélagsins, lýsti í fréttum RÚV í gær áhyggjur af skorti á grunnskólakennurum. Auglýst er eftir tuttugu kennurum til starfa á höfðuborgarsvæðinu þegar aðeins hálfur mánuður er í að kennsla hefjist.

„Þetta er virkilega áhyggjuefni af því að við sjáum þessa þróun til framtíðar og við munum þurfa að fylgjast vel með því,“ segir Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar. Færri útskrifist úr kennaranámi og margir kennarar leiti í önnur störf.

Þegar hörgull er á kennurum óska skólayfirvöld gjarnan eftir undanþágum til að fá að ráða ómenntaða kennara eða leiðbeinendur. Umsóknum um slíkt hefur fjölgað síðustu árin. Fyrir veturinn 2014 til 2015 bárust rúmlega tvö hundruð umsóknir. Þeim fjölgaðir veturinn eftir og fyrir síðasta vetur bárust 313 umsóknir. Þrátt fyrir kennaraskortinn hefur umsóknum ekki fjölgað fyrir komandi skólaár. Þær eru innan við tvö hundruð. 

„Það kemur nokkuð á óvart. Ég held að það megi segja samt að kennarar eru vel menntaðir núna. Árið 2000 voru um 20% kennara án leyfa en núna eru það ekki nema svona 7-8%,“ segir Arnór.

Menntamálastofnun fylgist með þróuninni og gæðum skólastarfs. Arnór segir það hversu krefjandi kennarastarfið útskýri að hlut hvers vegna fáist ekki nógu margir kennarar til starfa. „Ég held að hluti sé bara ímyndin og hvernig menn tala um kennara. Ég held að menn verði að horfa róttækt á þetta. Það verður að horfa á kennararmenntunina, hvernig hún er uppbyggð. Ég held að það sé ljóst að við erum ekki að laða nemendur að náminu. Það þarf að horfa náttúrulega á vinnuaðstæður og launakjör kennara,“ segir Arnór.