Starfsmaður Google rekinn vegna ummæla sinna

08.08.2017 - 03:30
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Búið er að reka hátt settan forritara hjá Google vegna ummæla sem hann lét falla í umdeildu minnisblaði á dögunum. Tjáði hann í minnisblaðinu þá skoðun sína að líffræðilegir eiginleikar kynjanna væru skýring þess að færri konur en karlar séu hátt settar innnan tæknigeirans, frekar en að misrétti kynjanna ráði þar för. Hann var sagður brjóta hegðunarreglur starfsmanna og honum sagt upp starfi. Framkvæmdastjóri Google, Sundar Pichai, lét starfsmenn vita af þessu með tölvupósti í dag, mánudag.

Pichai sagði að deila mætti um margt sem stóð í minnisblaðinu, enda þótt flestir innan Google kynnu að vera því ósammála, en að ummælin um líffræðilega eiginleika kynjanna hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Ekki sé í lagi að gefa til kynna að sumir starfsfélagar séu hæfari en aðrir vegna líffræðilegra eiginleika. Hegðunarreglur Google miði að því að vinnustaðurinn sé laus við áreiti, ógnandi hegðun, hlutdrægni og ólöglega mismunun.

Sjá frétt BBC hér.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV