„Starfsandinn var aldrei eðlilegur“

08.08.2017 - 10:16
Mynd með færslu
 Mynd: HO  -  Facebook
Hilmar Oddsson hefur látið af störfum sem skólastjóri Kvikmyndaskóla Íslands, en hann hefur gegnt starfinu undanfarin 7 ár. Hann segir breytinguna hafa legið lengi fyrir, og hyggst snúa sér aftur að kvikmyndagerð. Hann segir viss vonbrigði fólgin í því að hafa ekki getað leitt til lykta mál sem snúa að samstarfi skólans og Háskóla Íslands.

„Þetta hefur legið lengi fyrir af minni hálfu. Það er rúmt ár síðan ég fór að finna fyrir því að ég þyrfti að breyta til. Ég lít ennþá á mig sem kvikmyndaleikstjóra, og ef ég ætla að gera það, þá tekur það tíma. Ég er búinn að fullreyna það að ég get ekki gert hvort tveggja í einu,“ segir Hilmar.

Hann segist ekki vita til þess að búið sé að velja manneskju til að taka við starfinu, en bætir því við að hann komi ekki að valinu með neinum hætti. „Það væri óeðlilegt ef ég kæmi að því. Það liggja fyrir einhverjar áherslubreytingar í rekstri, sem er mjög eðlilegt.“ Hann segist ekki vita til þess að búið sé að auglýsa í starfið.

Þjónustusamningur til ársloka 2018

Undanfarin ár hefur skólinn átt í rekstarörðugleikum. Þann 30. apríl síðastliðinn fjallaði fréttastofa RÚV um fjárhagsvanda og vangoldin laun starfsfólks. Þá var eftir Böðvari Bjarka Péturssyni, stjórnarformanni og eiganda skólans að opin lánalína hefði fengist til að jafna út sjóðsstreymi í rekstrinum, en hann nefndi óreglulegt streymi sem rót rekstrarvandans.

Kvikmyndaskólinn gerði þjónustusamning við Mennta- og menningarmálaráðuneytið árið 2015.  Samningurinn var til þriggja ára, fram í lok árs 2018. Þar segir að ríkið greiði skólanum 80 milljónir króna árlega og er sú krafa gerð að fyrirtækið styrki eiginfjárhagsstöðu um 20 milljónir á þessum tíma með hlutafjáraukningu.

Samstarf við HÍ er yfirlýst stefna

Fyrirhugað samstarf Kvikmyndaskólans við Háskóla Íslands hefur verið í burðarliðnum í nokkur ár, en stjórn skólans hefur farið þess á leit við háskólann að komið verði á samstarfi, og hægt verði að útskrifa nemendur úr nýrri námslínu þar sem nám í kvikmyndagerðarnámi við Kvikmyndaskóla Íslands annarsvegar, og kvikmyndafræði, sem kennd er við Háskóla Íslands, myndu sameinast.

„Það er yfirlýst stefna okkar að stefna að því að tengja okkur við háskólann. Við náðum áfangaárangri, náðum því að námið er núna á fjórða þrepi, sem þýðir að einingarnar okkar eru ECTC einingar, svokallaðar háskólaeiningar.“ Að auki er skólinn meðlimur í CILECT, sem eru alþjóðleg samtök kvikmyndaskóla, og eru virtustu kvikmyndaskólar heims meðlimir í samtökunum. „Við erum að kenna það nákvæmlega sama og skólar sem eru að gefa út gráður á háskólastigi,“ segir Hilmar.

Mynd með færslu
 Mynd: Kvikmyndaskóli Íslands
Nemendur og starfslið skólans 2016

Aldrei eðlilegar starfsaðstæður

Hann segir að 5 ára samtal við háskólann sé að baki. Hilmar segir að árið 2015 hafi komið ótvíræð viljayfirlýsing til samstarfs frá forsvarsmönnum háskólans. „Þetta er bara bákn. HÍ er stórkostlegur og frábær skóli, en það er mín persónulega skoðun að ég set spurningarmerki við raunverulegan áhuga þeirra flestra, en þó ekki allra.“ Hann segir jafnframt að mannabreytingar innan háskólans gætu hafa sett strik í reikninginn. „Það vantar vissa eftirfylgni.“

„Það hefur verið mun erfiðara fyrir okkur að vinna okkur fylgi og stuðning heima heldur en erlendis,“ segir Hilmar, og nefnir að íslenskar kvikmyndir og íslensk kvikmyndagerð njóti meira sannmælis erlendis. „Ég sjálfur var þeirrar gæfu aðnjótandi að [í gegnum CILECT] kynntist ég öllum helstu stjórnendum bestu kvikmyndaskóla heims. Við erum í miklu áliti erlendis. Og íslenskar kvikmyndir njóta meira sannmæli erlendis heldur en hérlendis. Þegar ég ræði við kollega erlendis, þeir eru miklu sanngjarnari í öllum dómum, þeir eru miklu hlutlausari. Samlandar finna hjá sér þörf að tala niður efni úr heimalandinu. En það eru að sjálfsögðu undantekningar og þetta á ekkert við alla, en þetta er svolítið vandamál. Það er svona, næsti bær við Þórðargleði. En við eigum að vera gagnrýnin og þannig gerast hlutirnir.“

Íslendingar framarlega

Aðspurður segir hann menntun kvikmyndagerðarfólks á Íslandi standa mjög framarlega í samanburði við nágrannalönd. „Við stöndum mjög framarlega að mörgu leyti. Í dag er ekkert mál að manna einstaklega fagmannlega skipað crew [ísl. tökulið], ekki síst, og það má aldrei gleymast, meðal annars vegna Kvikmyndaskóla Íslands. Þú færð fólk í allt. Samkeppni er líka orðin það mikil að fólk veit að ef það stendur sig ekki á fyrsta degi þá mætir það ekki á dag tvö.“

Hann segir að ákjósanlegast væri að geta boðið upp á nám á meistarastigi, og fleiri aðilar en Kvikmyndaskóli Íslands hafi sóst eftir að koma að því námi. „Svo koma þeir [fagmenn] upp sem kjósa að læra í gegnum starfið. En við stöndum ótrúlega vel miðað við allt, hvað við erum fá og starfsaðstæður og allt þetta.“

Hefði viljað raunverulegri meðbyr

Hann segir vandamál skólans vera mun eldri en veru hans í starfinu. „Ég varð var við vissan meðbyr þegar ég kom þangað. Og þegar á reyndi hefði ég viljað hafa hann raunverulegri. Þetta er lýjandi til lengdar að vera alltaf að berjast fyrir tilvist stofnunar sem maður er að reka. Ég kannast ekki við það að búa við eðlilegar starfsaðstæður, ég tel að ég hafi aldrei gert það. Starfsandinn var aldrei eðlilegur. En þá er ég ekki að meina mitt nánasta samstarfsfólk.“

Hann segir jafnframt vandann sem snýr að rekstri skólans vera margþættan. „Þetta er flókið, ég veit að þetta er flókið. Maður gladdist í hvert skipti sem maður fann fyrir einhverjum sem var tilbúinn að skoða hlutina vítt og breitt. En þetta er dýrt, þetta nám er í eðli sínu mjög dýrt. Þetta er allstaðar þannig, og skólar í öllum löndum heims eiga í erfiðleikum og berjast í bökkum.“

Tekur gífurlegan séns

 „Þegar ég kom að skólanum, þá var ég með þrjú verkefni í gangi og ætlaði að þróa þau kvölds og helgar. Svo komst ég að því að þetta er meira en fullt starf, að reka kvikmyndaskóla. Þú gerir ekkert annað.“ Í framhaldinu ákvað Hilmar að gera breytingar. „Ég komst að því að þessvegna verð ég að taka sénsa, ég er að taka gífurlegan séns fyrir mig og mína, og ég ætla samt að gera það.“

Hann vill ekki gefa mikið upp um framhaldið en segir að ýmis verkefni séu í deiglunni. „Ég fer bráðum að sækja um eitthvað og þá verður það opinbert. Ég er búinn að vera í óformlegum viðræðum við hina og þessa.“ Hilmar segist jafnframt vera opinn fyrir nýjum verkefnum.

Í dag, þriðjudag, er fyrsti vinnudagur Hilmars eftir starfslok hjá skólanum. „Þá hefst nýtt líf.“

Í spilaranum hér að neðan má sjá myndbrot af Hilmari að taka lagið á Rás 2, árið 2010.