Stal peningum af fötluðum skjólstæðingi sínum

20.03.2017 - 13:58
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már  -  RÚV
Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi fyrir helgi karlmann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt. Maðurinn sinnti réttindagæslu fyrir mjög fatlaðan mann en samkvæmt ákærunni dró hann sér 681 þúsund krónur af reikningi hans. Hann millifærði 633 þúsund krónur af reikningi mannsins yfir á sinn og notaði auk þess debetkortið til að kaupa vörur og þjónustu til eigin nota fyrir tæpar 50 þúsund krónur.

Í dómi héraðsdóms er maðurinn sagður hafa brotið alvarlega gagnvart fötluðum einstaklingi með broti sínu.  

Dómurinn horfði þó til þess að maðurinn hafi skýlaust viðurkennt brot sitt og virða verði honum það til málsbóta að það hafi hann gert án undanbragða.

Hann hafi auk þess endurgreitt fjárhæðina að fullu ásamt vöxtum og kostnaði áður en ákæra var gefin út í málinu og lýst yfir iðran sinni vegna háttseminnar.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV