Spara 200 milljónir með skertri þjónustu

02.03.2017 - 14:43
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanns Jónsson  -  RUV.is
Íslandspóstur telur að sparnaður af því að fækka dreifingardögum í dreifbýli nemi 200 milljónum króna árlega. Pósturinn segir beinan sparnað af aðgerðinni nema 170 milljónum króna á ári en að svigrúm til flokkunar hafi jafnframt aukist og skilað sér í sparnaði.

Leyfilegt var að fækka dreifingardögum pósts í dreifbýli var í lok árs 2015 við mikla óánægju víða á landsbyggðinni. Tók breytingin gildi þann 1. apríl 2016. Póst- og fjarskiptastofnun veitti til þess leyfi og byggði ákvörðunina á breytingu á reglugerð um alþjónustu þar sem sett voru ákveðin kostnaðarviðmið við fækkun dreifingardaga í dreifbýli.

Óreglulegir afhendingardagar

Í skýrslu sem Íslandspóstur skilaði til Póst- og fjarskiptastofnunar um breytinguna kemur fram að kvartanir vegna hennar voru helst vegna óreglulegra afhendingardaga en borið er út annan hvern virka dag og eru dagarnir ekki þeir sömu milli vikna. Þá hafa borist kvartanir borist vegna dreifingar blaða, einkum Morgunblaðsins, þar sem blaðið er ekki borið út daglega. Í skýrslunni segir að Íslandspóstur hafi fullan hug á því að halda uppi tíðari þjónustu en að tekjur af þjónustunni nægi ekki fyrir kostnaði. Þá bendir Íslandspóstur á dagatal um dreifingardaga sem sé sent á öll póstföng í dreifbýli auk þess að vera aðgengilegt á heimasíðu Íslandspósts.

Færri kvartanir en búist var við

Pósthúsasvið Íslandspósts telur að miðað við umfang breytinganna þá hafi framkvæmdin gengið vel, kvartanir hafi verið mun færri frá móttakendum sendinga en búist var við. Þá hafi kostnaðarlækkun fyrir fyrirtækið gengið eftir. Reiknað hafi verið með því að spara 50 prósent af kostnaði við það að fækka dreifingardögunum og að það hafi verið raunin frá fyrsta degi.