S&P hækkar lánshæfismat ríkissjóðs

17.03.2017 - 23:38
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Matsfyrirtækið Standard & Poor's hækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands í kvöld úr A/A-2 upp í A/A-1. Frá þessu er greint á heimasíðum Seðlabankans og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Standard & Poor's segir að nýlegt afnám á nánast öllum fjármagnshöftum og gerð samninga við eigendur aflandskróna styrki erlenda stöðu landsins.

Stöðugar horfur endurspegla þá skoðun fyrirtækisins að möguleikarnir á frekari styrkingu opinberra fjármála vegi á móti hættunni á ofhitnun hagkerfisins á næstu tveimur árum.

Í tilkynningu S&P segir að líkurnar hafi minnkað á óhagstæðri greðslujafnaðarþróun sem matsfyrirtækið taldi áður að geti átt sér stað í kjölfar afnáms hafta. Þá telur fyrirtækið að aðgerðirnar sem gripið var til bæti einnig sveigjanleika peningastefnunnar. Þótt búast megi við auknum fjárfestingum lífeyrissjóða erlendis eigi það ekki að valda þrýstingi á gjaldeyrismarkaði.

Fyrr í dag birti matsfyrirtækið Moody's frétt þar sem sagt er að afnám fjármagnshafta hafi jákvæð áhrif á lánshæfi ríkissjóðs og fjármálageirans. Matsfyrirtækið segist þó vænta þess að íslensk stjórnvöld séu tilbúin til að grípa til aðgerða, ef nauðsyn ber til, til að takmarka áhættu vegna þenslu í ferðaþjónustu. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV