Sómalía: Skutu ráðherra fyrir mistök

04.05.2017 - 11:42
epa00898790 Transitional government troops guard the outside of the presidential palace where Somalia's President Abdullahi Yusuf Ahmed has set up his base in the capital Mogadishu on Tuesday, 9 January, 2007. Ethiopian troops who helped rout the
Sómalskir öryggissveitarmenn á verði við forsetahöllina í Mogadishu.  Mynd: EPA
Ráðherra opinberra framkvæmda í Sómalíu, Abdualli Sheikh Abas að nafni, var skotinn til bana í dag skammt frá forsetahöllinni í Mogadishu. Öryggissveitarmenn stjórnvalda segjast hafa fellt hann fyrir mistök. Þeir töldu að hryðjuverkamaður væri þar á ferð.

Abas var 31 árs að aldri. Hann var kosinn á þing í nóvember síðastliðnum, sá yngsti sem þeim áfanga hefur náð í Sómalíu. Hann hafði gegnt ráðherraembætti síðan í febrúar. Mohamed Abdullahi Mohamed Farmajo forseti var staddur í Eþíópíu þegar hann frétti af því að ráðherrann hefði verið skotinn til bana. Hann hélt heim þegar í stað. Útvarpið í Mogadishu hefur eftir upplýsingamálaráðherra Sómalíu að nokkrir hafi verið handteknir vegna málsins.

Abdualli Sheikh Abas ólst upp í flóttamannabúðum í Kenía. Þar búa mörg hundruð þúsund Sómalar sem hafa flúið heimalandið vegna þurrka og átaka. Uppreisnarmenn al Shabab hryðjuverkasamtakanna hafa stóran hluta Sómalíu á valdi sínu.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV