Sökkva sér í vinnu utan búsins til að lifa af

07.09.2017 - 19:56
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Ungir sauðfjárbændur þurfa margir að sökkva sér í vinnu utan búsins til að brúa bilið vegna verðfalls og offramleiðslu. Bóndi í Skriðdal segir að á sama tíma og fækka eigi fé vegna offramleiðslu vilji ungir bændur stækka búin til að þau verði hagkvæmari.

Algengt er að bændur taki að sér ýmis störf utan bús og það á við um Svein Vilberg á Haugum í Skriðdal. Þetta haustið býr fjölskyldan sig undir um 30% lækkun á afurðaverði og Sveinn er búinn að ráða sig í vegagerð í Berufirði. „Við erum gróflega búin að reikna það fyrir okkur að þetta séu rúmar tvær milljónir sem okkur muni vanta upp á. Þetta er eitthvað sem maður hleypur ekkert eftir. Þó að við séum bæði útivinnandi og ég kominn hingað í vegavinnu,“ segir hann. 

Afurðastöðvar lækka verð til bænda vegna þess að lítið muni fást fyrir útflutt kjöt. Ráðherra hefur boðað aðgerðir til að minnka framleiðslu og fækka fé um 20% í landinu. Bændur fá greitt fyrir að hætta eða draga úr framleiðslu. Fram kom í fréttum í gær að Sveinn Vilberg segir að á sama tíma séu ungir bændur frekar að huga að fjölgun og því að búin nái hagkvæmri stærð. „Það er vel yfir meðalstærð sauðfjárbúa á landinu eins og það er í dag. Og auðvitað reynum við að framleiða eins mikið og við getum til að auka tekjurnar á okkar búi. Við erum að ná góðum afurðum og góðri vigt og góðri frjósemi og það verður aukin framleiðsla,“ segir Sveinn Vilberg.

Það á við á bænum Gilsárstekk í Breiðdal en þar hóf Guðný Harðardóttir búskap ásamt fjölskyldu sinni fyrir þremur árum. „Við ætum að halda ótrauð áfram og við ætlum að halda okkur við okkar plan og fjölga upp í 400 fjár sem fyllir okkar fjárhús sem er líka ásættanleg rekstrarstærð á slíku sauðfjárbúi. Það er einn sem er að bregða búi hérna og svo er bara þungt hljóðið í mörgum eðlilega. Það sagði nú bara einn við mig í dag að hann nennti ekki sjálfboðavinnunni lengur,“ segir Guðný.

Fram kom í fréttum í gær að sláturleyfishafar urðu ekki síst varir við áhuga ungra bænda á að hætta en markmið aðgerða stjórnvalda var að fá eldri bændur til hætta fyrr en ella. Sveinn Vilberg telur að verðhækkun með útflutningskyldu hefði frekar hvatt unga bændur til að halda áfram. „Við horfum á okkar svæði upp á það að það er stór hópur sauðfjárbænda að hætta hvort sem er. Innan næstu 5-7 ára. Þetta ofan á það er alls ekki það sem við þurfum hérna. Það fækkar og fækkar með hverju ári til sveita. Ég er að ganga upp undir 40 daga eftir sauðfé á hverju hausti og ég býð engum að taka við því þegar ég hoppa frá,“ segir Sveinn Vilberg. 

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV