Snýst ekki um að vera merkilegur og slá í gegn

04.07.2017 - 13:33
„Þegar maður bókar svona ellefu tónleika í röð er það yfirleitt einhver fljótfærni og maður fattar það ekki fyrr en maður leggur af stað,“ segir tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson, sem lauk á sunnudag tónleikaferð um Ísland. Hann spilaði á ellefu tónleikum á jafn mörgum dögum ásamt hljómsveit sinni, Ritvélum framtíðarinnar, vítt og breitt um landið.

Guðrún Sóley Gestsdóttir, einn umsjónarmanna Morgunútvarpsins á Rás 2 náði tali á Jónasi eftir tónleika á Snæfellsnesi á föstudagskvöld. Viðtalið í heild má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.

Auðveldara að ferðast um landsbyggðina en Reykjavík

„Ég er með svo frábæran hóp með mér, þessi hljómsveit sem ég er með sem gengur undir nafninu Ritvélar framtíðarinnar. Þegar maður bókar svona ellefu tónleika í röð er það yfirleitt einhver fljótfærni og maður fattar það ekki fyrr en maður leggur af stað. En þá getur maður alltaf yljað sér við það að vera með svona rosalega góðan hóp sem heldur öllu á lofti,“ segir Jónas.

„Það er alltaf rosalega gaman að ferðast um landið,“ segir Jónas og bætir við að það sé í raun einfaldara að flakka á milli landshorna með tónleika en á milli hverfa í Reykjavík þrátt fyrir vegalengdirnar. „Maður getur farið á ótrúlega marga staði og fólk mætir, það er svo skemmtilegt. Það er svo mikil stemning, þegar einhver er komin til að spila þá mætir fólk.“

Konur, börn og hundar koma með

„Við gerðum þetta í fyrra og gerðum þetta bara að fjölskylduferð, þannig að allir í hljómsveitinni voru með krakkana með og mömmur, allir komu með. Það varð svo ofboðslega skemmtilegt að við ákváðum að gera þetta bara aftur. Við vorum svo spennt að við gleymdum að spá í hvað við myndum spila mikið,“ segir Jónas og hlær.

Tónleikaröðin hófst fimmtudaginn 22. júní með tónleikum í Mosskógi, á föstudeginum spilaði sveitinn við Gunnarshólma í Austur Landeyjum og á laugardeginum á Drangey Music Festival í Skagafirði áður en hún hélt heim til Reykjavíkur og spilaði á Rosenberg á sunnudagskvöldið. Mánudaginn 26. júní komu Jónas og félagar fram á Vík í Mýrdal, á þriðjudeginum á Seyðisfirði og á Húsavík á miðvikudaginn. Á fimmtudaginn spiluðu þeir á Dalvík, á föstudeginum á Rifi á Snæfellsnesi og á laugardaginn á Lopapeysunni á Akranesi. Ferðinni var síðan slaufað „heima“ á Rosenberg á sunnudagskvöld. Elleftu tónleikar á ellefu dögum.

Hjálpar áheyrendum að tengjast

Jónas hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár og á tónleikum má sjá að hann á auðvelt með að hrífa áheyrendur með sér og hita í þeim blóðið. „Stóra vakningin í mínu lífi sem tónlistarmaður var þegar ég uppgötvaði að tónlist snerist í raun ekki um að fara upp á svið og vera rosalega merkilegur og slá í gegn. Heldur að fara upp á svið sem einhverskonar aðili sem er að hjálpa öllum hinum að tengjast. Það sé í raun hlutverkið. Þegar maður nálgast það þannig þá gerast töfrar og fólk hrífst með og upplifir að það sé hluti af sjóinu,“ segir Jónas.

Líkt og hjá mörgum íslenskum tónlistarmönnum er sumarið mikil vertíð í tónleikahaldi hjá Jónasi. Hann segir mikilvægt að taka sér hvíld inn á milli og í haust ætlar hann að einbeita sér að nýrri plötu. „Ég hef verið að fara til útlanda og dvelja aðeins og aftengja mig alveg núna á þessu ári og ég ætla að gera meira af því. Ég finn að ég hef verið að keyra kannski fullmikið á útopnu í svolítinn tíma. Þetta er brunnur sem þarf að fylla á,“ segir Jónas, sem er búinn að gera útgáfusamning fyrir næstu plötu sína sem hann vonast til að klára á þessu ári. „Ég á mikið af hálfkláruðu efni sem ég ætla reyna að setja saman og stefni á að vera með plötu á þessu ári, sé hvernig það gengur.“

Mynd með færslu
Atli Þór Ægisson
vefritstjórn
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi