Snjór og slyddukrapi síðdegis

28.04.2017 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það rigndi töluvert á suðvestanverðu landinu í morgun og úrkoman heldur áfram síðdegis. Þá kólnar skyndilega og snjóar líklega á láglendi. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir vissara fyrir vegfarendur að fylgjast vel með.

Rigningin var mest í Ólafsvík eftir nóttina, náði þrjátíu millimetrum. Það rigndi einnig nokkuð á höfuðborgarsvæðinu í morgun en hún mældist nærri sextán millimetrar. Það gæti enn bætt í seinnipartinn. Það kólnar hratt á milli klukkan fjögur og sjö og gæti snjóað, einkum í lágsveitum sunnan- og suðvestanlands. 

Einar segir að það gæti kólnað mjög hratt í dag. „Það eru kuldaskil sem eru viðloðaði og eru hérna hægfara yfir og það leyfir ekkert af hitanum í þessu og það er svona slyddukrapi og slabb á Hellisheiði og kannski líka Mosfellsheiði í dag en síðan gerist það að þau komast yfir og við verðum í jaðri þeirra síðdegis og þá kólnar nokkuð hastarlega, ekkert ósvipað og gerðist um miðjan dag í gær og þá má reikna með því að það gæti snjóað á Suðurlandi og suðausturlandi og upp í Borgarfjörð, Borgarnes og kannski líka vestast á Snæfellsnesi,“ segir Einar. 

Spáin fyrir vikuna lofar góðu og Einar á von á því að við verðum laus við þetta vorhret, eða öllu heldur sumarhret, á mánudag eða þriðjudag. „Þessi kuldi sem kemur úr vestri verður viðloðandi hér fram á sunnudag og jafnvel á mánudag en það eru allar líkur á því að það hlýni hér verulega eftir það framan af næstu viku og við eigum hlýja og góða daga í vændum þegar líður á vikuna.“ 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV