Snjóflóðið féll á þekkt göngusvæði í Esjunni

28.01.2017 - 22:32
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Jónas Guðmundsson, sem stýrði aðgerðum björgunarsveita slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Esjunni í kvöld, segir að staðurinn sem snjóflóðið féll á sé kannski ekki í alfaraleið en þetta sé þó þekkt göngusvæði þegar fólk er að ganga á hátind fjallsins. Hann segir að þeir hafi ekki séð nákvæmlega hversu stórt snjóflóðið var - mögulega sé að þau hafi verið tvö. „Við komum þarna rétt áður en það dimmir.“

Lögreglunni barst tilkynning klukkan fimm síðdegis um að þrír menn hefðu lent í snjóflóðinu - fjölmennt lið lögreglu og björgunarsveitarmanna var kallað út sem og þyrla Landhelgisgæslunnar og sjúkraflutningamenn. Tveir af mönnunum komust úr flóðinu sjálfir, annar slasaður og hinn lemstraður, samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg í gærkvöld. Þriðji maðurinn fannst seint í gærkvöld. 

Jónas segir að þegar sé snjóflóð skipti miklu máli að hafa hraðar hendur þannig að allt viðbragð á svæðinu boðað út. „Þetta voru um 130 til 40 manns frá okkur sem voru þarna á svæðinu en af þeim voru 30 til 40 í viðbragðsstöðu. Þetta hafa verið svona 70 til 80 manns í fjallinu í beinni leit og aðgerðum.“

Jónas segir að leitarstarfið hafi gengið ágætlega - það hafi þó tafið aðeins að upplýsingar um staðinn hafi ekki verið alveg ljósar. Hann viti ekki hvað hafi valdið því - hvort tilkynningin hafi verið ónákvæm eða eitthvað annað. Mennirnir þrír hafi líka skipti liði og björgunarsveitirnar hafi því þurft að senda menn á tvo til þrjá staði til að byrja með. „En þetta tafði ekki neitt að ráði.“

Björgunarsveitarmenn fundu fyrst tvo fjallgöngumenn og Jónas segir að þeir hafi verið fyrir neðan flóðið og ekki sé vitað hvort þeir hafi alveg farið á kaf í flóðinu. „Þeir voru ekki alveg sjálfbjarga - voru í 45 gráðu bratta í 400 til 500 metra hæð. Það tók tíma að koma þeim í þyrluna. Það voru gerðar nokkrar tilraunir með henni til að komast að þeim en tókst ekki  þannig að björgunarsveitarmenn þurftu fara ská yfir hlíðina til að komast til þeirra.“ Þriðji maðurinn fannst síðan milli klukkan 19:30 og 20:30.

Jónas segir að snjóflóð í Esjunni séu algengari en margir gerir sér grein fyrir. „Þetta er alvöru fjall - tæplega þúsund metrar - þótt þetta sé heimafjallið okkar.“ Full ástæða sé til þess að fara að öllu að gát - vera með hjálma, axir, brodda og línur - þegar menn séu utan Þverfellshorns en það er þessi þekkta gönguleið sem flestir fara.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV