Smyglarar ráku tugi ungmenna í opinn dauðann

10.08.2017 - 06:38
epa05854740 Bodies of Somali migrants, who were allegedly killed in a helicopter attack while traveling in a boat off the coast of Yemen, lay on the ground, in the western Yemeni city of Hodeida, 17 March 2017. According to media reports at least 42
Þúsundir reyna að komast til Persaflóaríkja í gegnum Jemen á ári hverju en sú leið er hættuleg fyrir margar sakir. Minnst 42 sómalskir flóttamenn létust í árás Sádi-Araba á bát þeirra undan Jemensströndum í mars síðastliðnum.  Mynd: EPA
Talið er að yfir 50 hafi drukknað þegar smyglarar ráku á annað hundrað sómalska og eþíópíska flóttamenn út í opinn dauðann við strendur Jemens á dögunum. Flest hinna drukknuðu eru sögð hafa verið á táningsaldri. Haft er eftir nokkrum sem lifðu af, að báturinn sem þau voru á hafi verið skammt frá landi þegar smyglararnir tóku til við að hrekja flóttafólkið í sjóinn með harðri hendi og jafnvel hrinda því út í er þeir sáu menn á ströndinni sem þeim þótti líkjast lögreglu eða öðrum „yfirvaldstýpum.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Aþjóða fólksflutningastofnuninni, IOM, en en starfsmenn hennar fundu 29 lík grafin á ströndinni í Shabwa-héraði á suðurströnd Jemens, þar sem þeir voru við eftirlitsstörf. Eftirlifandi félagar hinna látnu höfðu grafið þá. 120 voru um borð, en 22 er enn saknað.

Þrátt fyrir stríðið í Jemen og allar þær hörmungar sem það hefur í för með sér veðja furðumargir á þá leið frá Norður-Afríku yfir til hinna vellauðugu ríkja við Persaflóann, þar sem margir gera sér vonir um atvinnu og betra líf. Talið er að um 55.000 manns hafi siglt frá Horni Afríku við Adenflóa til Jemens það sem af er þessu ári. Sérfræðingar IOM áætla að meira en helmingur þeirra sé yngri en átján ára og um þriðjungur konur og stúlkur.