Slökkt á ofurskæru skilti í Fífunni á næturnar

18.05.2017 - 14:12
Ákveðið hefur verið að slökkva á umdeildu háskerpu-skilti, sem sett var upp milli Fífunnar og Hafnarfjarðarvegar frá klukkan tíu á kvöldin til sjö á morgnanna. Þá hefur birtan frá skiltinu verið minnkuð um 20 prósent. Íbúar í hverfinu voru óánægðir með skiltið og undruðust staðsetningu þess. Hverfið væri friðsælt en ekki einhver Hollywood-breiðgata.

Skiltamálið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs í byrjun mánaðarins sem vísaði því til byggingafulltrúa bæjarins. Hann skilaði af sér umsögn sem var kynnt á fundi bæjarráðs í morgun.

Í henni kemur fram að um tuttugu kvartanir hafi borist vegna skiltisins og því hafi verið ákveðið að halda fund með forsvarsmönnum þess, íþróttafélaginu Breiðabliki. Félagið benti á Billboard ehf því það hefði umsjón með nýja háskerpu-skiltinu. 

Í umsögninni segir enn fremur að á fundi byggingafulltrúans með forsvarsmönnum fyrirtækisins hafi verið farið yfir hvað væri hægt að gera til að minnka óánægju fólks.

Meðal þess væri að minnka birtumagn, lengja tíma hverrar auglýsingar og  skipting milli þeirra væri milduð. Þá var þeirri hugmynd einnig varpað fram að banna hreyfimyndir. 

Byggingafulltrúinn segir að á meðan málið sé í vinnslu hafi verið ákveðið að slökkva á skiltinu frá klukkan 22 til 07 og minnka ljósstyrkinn um 20 prósent. Þá sé einnig verið að skoða hvort hægt sé að snúa skiltinu aðeins á standinum þannig að minni truflun verði af því við lækinn.

Það kann síðan að hljóma nokkuð kaldhæðnislega en vegna deilunnar um háskerpuskiltið í Kópavogsdalnum hafa erkifjendur Breiðabliks ,HK, ekki fengið leyfi til að setja upp háskerpuskilti. Annað er til móts við BYKO en hitt er við Hafnarfjarðaveg til móts við Lund.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV