Slíta öllum friðarviðræðum

Mynd með færslu
Ísraelska ríkisstjórnin samþykkti í dag að hætta öllum friðarviðræðum við Palestínumenn vegna samkomulagsins sem Fatah-hreyfingin og Hamas-samtökin gerðu í vikunni um myndun þjóðstjórnar.

Í yfirlýsingu stjórnarinnar segir að Ísraelar geti ekki átt í samningaviðræðum við samtök sem margoft hafa lýst því yfir að Ísraelsríki skuli eytt. Gripið verði til ýmissa ótilgreindra ráðstafana vegna samkomulags Fatah og Hamas.

Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði í viðtali við bandarísku NBC-sjónvarpsstöðina í dag að samkomulagið hefði reynst banabiti friðarferlisins. Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, yrði að velja á milli þess að friðmælast við Ísrael eða mynda stjórn með Hamas, hann gæti ekki gert hvorttveggja.

AFP-fréttastofan hafði eftir Saeb Erekat, aðalsamningamanni Palestínumanna, að leiðtogar þeirra væru að vega og meta stöðuna og hvernig bregðast ætti við ákvörðun Ísraelsstjórnar. Sem stendur væru sættir og þjóðareining samt forgangsatriði hjá palestínsku þjóðinni. Búist er við að viðræður Hamas og Fatah um stjórnarmyndun taki nokkrar vikur. Sættir hreyfinganna eru sögulegar en kuldi hefur ríkt í samskiptum þeirra undanfarin ár eftir að Hamas sölsaði undir sig öll völd á Gaza-ströndinni fyrir sjö árum.