Skýrsla tekin af umboðsaðila Le Boreal

05.08.2017 - 04:17
Mynd með færslu
 Mynd: Jonn Leffmann  -  Wikimedia Commons
Tollstjóri hefur tekið skýrslu af Hlyni Loga Þorsteinssyni frá fyrirtækinu Gáru, sem er umboðsaðili franska skemmtiferðaskipsins Le Boreal. Sömu­leiðis hafi staðið til að taka skýrslu af Jó­hanni Boga­syni, sem einnig starfar hjá Gáru. Halda skýrslutökur áfram eftir helgi og verður málið skoðað þegar þeim er lokið, er haft eftir yfirtollverði.

Mbl.is segir frá þessu í gær.

Skipstjóri Le Boreal hleypti nýverið um 200 farþegum í land í friðlandi Hornstranda án þess að fá tollafgreiðslu eins og lög kveða á um. Landhelgisgæslan hafði samband við áhöfn skipsins og skipaði henni að halda förinni áfram.

Áður var skýrsla tekin af skipstjóra skipsins. Ekkert bendir til þess að skipstjórinn hafi visvítandi ætlað að brjóta íslensk lög, segir Kári Gunnlaugsson, yfirtollvörður. Framkvæmdastjóri Gáru segist axla fulla ábyrgð á atvikinu.