Skýra þurfi betur atriði í sáttmálanum

11.01.2017 - 22:17
Mynd með færslu
 Mynd: Bændasamtök Íslands
Forseti Alþýðusambandsins segir félagslegan stöðuleika ekki vera að finna í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir mikilvægt að fá að vita hvenær og hvernig ríkisstjórnin ætli að framkvæma það sem kemur fram í sáttmálanum. 

Formaður Bændasamtakanna segir mikilvægt að standa eigi við þann sáttafarveg sem hafi verið ákveðinn þegar búvörusamningarnir voru samþykktir. Samtökin fagna því að sérstaklega sé talað um að efla íslenskan landbúnað en skýra þurfi betur einstaka atriði, til dæmis endurskoðun á ráðstöfun innflutningskvóta. 

„Það má alveg búast við því að nýr ráðherra og ný ríkisstjórn setji mark sitt á með einum og öðrum hætti. Hins vegar vitum við það að þegar fólk tekur við ábyrgðarembætti eins og þessu þá að sjálfsögðu ber að sýna ábyrgð gagnvart þeim atriðum sem landbúnaðurinn er í þessu tilfelli og við höfum enga ástæðu til að ætla annað en að það verði gert,“ segir Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna. 

Forseti Alþýðusambandsins segir margt jákvætt í sáttmálanum, meðal annars að hækka eigi grunnbætur fæðingarorlofs en saknar þess að stefnt sé að því að lengja það.

„Það er fjallað um stöðugleika í efnahagsmálum og það er vissulega samtal um vinnumarkaðinn, ég átti von á því, í það minnsta gagnvart verkalýðshreyfingunni , ASÍ og BSRB til dæmis, við vildum ekki skipa fulltrúa í svokallað þjóðhagsráð, vegna þess að okkur fannst félagslegur stöðugleiki ekki hafa nægjanlegt svigrúm og ekki ljóst hvernig ætti að takast á við það. Það er deiluefni sem að fráfarandi ríkisstjórn skilur eftir sig og núverandi forsætisráðherra veit af. Hann er ekki ávarpaður í þessum stjórnarsáttmála og ekki gerð tillaga að því hvernig eigi að höndla þá deilu. Hugtakið félagslegur stöðugleiki er ekki að finna í þessu plaggi,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins. 

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir samtökin muni fylgja fast eftir þeim hugmyndum sem lagt sé upp með í sáttmálanum, meðal annars endurskoðun peningastefnunnar. Hann segir forgangsatriði að launahækkanir tapist ekki vegna verðbólgu.

„Aðalatriðið í umræðunni er hins vegar þetta: við þurfum að vita hvenær, hvernig og með hvaða hætti menn ætla að útfæra þau loforð eða hugmyndir sem lagðar eru fram í stjórnarsáttmálanum,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. 

 

Mynd með færslu
Viktoría Hermannsdóttir
dagskrárgerðarmaður