Skyndilausnir leysi ekki vanda leikskólanna

08.09.2017 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Enn vantar rúmlega hundrað starfsmenn á leikskóla borgarinnar. Sigurður Sigurjónsson, varaformaður Félags stjórnenda leikskóla, segir að stytta þurfi viðveru barna og jafnvel senda heim. Skyndilausnir dugi ekki til að leysa viðvarandi mönnunarvanda á leikskólum í Reykjavík.

Það hefur gengið illa að manna bæði grunn- og leikskóla borgarinnar síðustu ár. Leikskólakennurum fækkar en börnum fjölgar og kennarar segja að það bitni á starfinu. Sigurður tekur undir það og segir að það vanti lausn til framtíðar. „Svo virðist sem að það vanti ennþá í rúmlega hundrað stöðugildi á leikskólana í Reykjavík. Þetta hefur þau áhrif að leikskólastjórar þurfa að stýra opnunartíma og stytta viðveru hjá börnum og jafnvel senda heim ef svo er og fresta inntöku. Tölurnar sýna það að þessi vandi fer að vera viðvarandi, og við þurfum ekki lengur einhverja plástra eða skyndilausnir, við þurfum bara alvöru lausnir til að leysa þetta til framtíðar,“ segir Sigurður. 

Vandinn meiri í ár en í fyrra

Vandinn er ekki nýr af nálinni en hann er líklega verstur í borginni. Borgaryfirvöld ætla að setja aukið fjármagn í skólana en óvíst er hversu hátt hlutfall ratar til leikskólanna. Sigurður segir að þar þurfi að bæta verulega í því stór hluti af viðbótarfjármagni fari væntanlega í launahækkanir síðustu ára. Á svipuðum tíma í fyrra vantaði um 75 starfsmenn á leikskóla borgarinnar. „Vandinn virðist vera meiri núna. Reykjavíkurborg gefur upp tölur þannig að það er auðveldast að fylgja því eftir. Ástandið í Kópavogi virðist vera svipað en stærðirnar í Reykjavík eru bara þannig að þær eru meira áberandi. Borgin hefur reyndar í orði brugðist við með því að setja meiri fjármuni inn í kerfið en það vantar svolítið að skýra hvernig það á leysa málið.“