Skruddan sem slapp úr greipum nasista

14.05.2017 - 14:14
Dýrmætasti gripur þjóðminjasafns Bosníu í Sarajevo lætur ekki mikið yfir sér, en líklega eiga fáar bækur sér eins spennuþrungna sögu. Þessi smágerða geitarskinnsskrudda, þvæld og útötuð í vínslettum, hefur meðal annars staðið af sér gyðingaofsóknir á Spáni , kaþólska rannsóknarréttinn, helför nasista og áralangt umsátrið um Sarajevo í Bosníustríðinu.

Í ljósi sögunnar fjallar um hið 600 ára gamla Sarajevo-handrit eða Sarajevo-haggöduna og ótrúlega sögu þess. Heyrið allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.

Sjö hundruð milljón dollara skrudda

Handritið var að öllum líkindum skrifað um miðja fimmtándu öld af gyðingum á Spáni. Svokölluð haggada-handrit segja söguna af því þegar Móses leiddi Ísraela úr ánauð í Egyptalandi og eru notuð við helgihald á páskahátíð gyðinga.

Sarajevo-handritið er eitt elsta handrit sinnar tegundar sem varðveist hefur, og jafnframt það glæsilegasta, en það er ríkulega myndskreytt með litríkum lýsingum. Það er því talið ómetanlegur dýrgripur og var eitt sinn tryggt fyrir 700 milljónir Bandaríkjadala. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia

Slapp við loga rannsóknarréttarins

Kaþólsku konungshjónin Ferdinand og Ísabella gerðu gyðinga brottræka frá Spáni árið 1492 og líklega hefur handritið þá farið á flakk eins og tugþúsundir spænskra gyðinga neyddust einnig til að gera.

Það skaut næst upp kollinum í gettóinu í Feneyjum á sextándu öld, þar sem það slapp naumlega við bókabrennur rannsóknarréttarins, sem annars dæmdi ótalmörg gyðingleg rit á bálið. 

Síðan rataði það einhvern veginn til Sarajevo-borgar þar sem fátækur gyðingadrengur seldi svo safni borgarinnar handritið fyrir nokkra skildinga árið 1894.

Ekki óhult í Sarajevo

Að handritið væri komið á safn þýddi þó alls ekki að það væri óhult enda var saga Sarajevo-borgar á tuttugustu öld afar stormasöm. 

Tvisvar þurftu starfsmenn safnsins að leggja líf sitt í hættu við að bjarga bókinni — fyrst frá nasistum í seinni heimsstyrjöld og síðar undan serbneskum sprengjum í Bosníustríðinu. 

Inn í sögu handritsins blandast svo örlagasaga fjölskyldu í Sarajevo og ungrar gyðingastúlku. Heyrið allan þáttinn um Sarajevo-handritið í spilaranum hér að ofan.

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 9.05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18.10. Finna má fyrri þætti á síðu þáttarins og í hlaðvarpi RÚV.

 

Mynd með færslu
Vera Illugadóttir
dagskrárgerðarmaður
Í ljósi sögunnar
Þessi þáttur er í hlaðvarpi