Skiptar skoðanir um náttúrupassa

07.01.2015 - 22:21
Mynd með færslu
Skiptar skoðanir um ágæti náttúrupassa komu fram á kynningarfundi á Akureyri í kvöld. Ráðherra neitar því að hún sé að ferðast um landið til að vinna málinu fylgi.

Á fundinum komu fram fylgjendur flestra þeirra leiða sem nefndar hafa verið við að innheimta gjald til uppbyggingu ferðamannastaða. Þarna kom í ljós hve skiptar skoðanir eru um ágæti náttúrupassa og spurning hvort iðnaðar- og viðskiptaráðherra þurfi að fara kynningarherferð um landið til að vinna málinu fylgi. „Þetta er ekki beint kynningarherferð. Það sem ég er að gera með þessu er að ég vil taka samtalið við þjóðina, vegna þess að þetta er mál sem að ég held að við öll höfum skoðanir á. Hér komu fjölmargar góðar ábendingar sem við munum nota í kjölfarið til þess að vinna betur að málinu,“ segir Ragnheiður Elín, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála boðaði á fundinum úttekt á frumvarpi um náttúrupassa. Hann hefur meðal annars áhyggjur af óheftum aðgangi einkaaðila sem geta sótt um aðild að náttúrupassa. „Það er í raun ekkert í þessu frumvarpi sem girðir fyrir það að einkaaðilar geti hafið gjaldheimtu á sínum eigin svæðum, sem þeir telja sig eiga. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni og í raun má segja að frumvarpi setji ákveðið fordæmi til þess að einkkaðilar myndu hreinlega gera það,“ segir Edward. Þetta segir ráðherra ekki rétta túlkun. „Einkaaðilar geta sótt um aðgang að náttúrupassa gegn því að þeir rukki ekki sjálfir aðgangseyri með öðrum hætti. Það er sá hvati sem við höfum í þessari aðferð til þess að laða að okkur einkaaðila og koma í veg fyrir að það verði rukkað sérstaklega á hverjum og einum stað,“ segir Ragnheiður Elín.