Skepnan

Páskaleikrit Rásar 1 2017, Skepnan eftir Hildi Knútsdóttur.
 Mynd: RÚV
Framhaldsleikritið Skepnan eftir Hildi Knútsdóttur er æsispennandi fjölskylduleikrit í fjórum þáttum. Leikritið verður frumflutt í Útvarpsleikhúsinu á Rás 1 yfir páskana, en hér er hægt að hlusta á alla þættina.

Unglingarnir Halldóra og Bessi eru stödd í sumarbústað ásamt mæðrum sínum, þeim Dunnu og Ölfu, sem eru miklar vinkonur. Dunna og Alfa eru leiðinni á hagyrðingakvöld í sveitinni sem þau Halldóra og Bessi hafa lítinn áhuga á.

Þau verða því eftir í sumarbústaðnum og ákveða að gera podcast með draugasögum sem þau byrja að taka upp á símann hans Bessa, til að hafa ofan af fyrir sér. Þessar sagnatilraunir eru býsna hrollvekjandi en komast hinsvegar ekki í hálfkvisti við veruleikann sem vinirnir Halldóra og Bessi standa frammi fyrir áður en yfir lýkur þetta kvöld…

1. þáttur
2. þáttur
3. þáttur
4. þáttur

Um höfundinn:
Hildur Knútsdóttir hefur skrifað fyrir bæði börn og fullorðna. Fyrsta skáldsaga hennar, Sláttur, kom út árið 2011. Nýjustu verk hennar eru hrollvekjandi tvíleikurinn Vetrarfrí (2015) og Vetrarhörkur (2016) og Doddi – Bók sannleikans! (2016) sem var skrifuð í félagi við verðlaunahöfundinn Þórdísi Gísladóttur.

Bækur Hildar hafa fengið fjölda verðlauna og viðurkenninga, m.a. hlaut hún fyrr í vor Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir nýjustu bók sína, Vetrarhörkur.

Viðar Eggertsson leikstýrir. Einar Sigurðsson samdi tónlist og sá um hljóðvinnslu 

Persónur og leikendur:
Halldóra: Íris Tanja Flygenring
Bessi: Haraldur Ari Stefánsson
Dunna, Mamma Bessa: Halldóra Rósa Björnsdóttir
Alfa, mamma Halldóru: Elva Ósk Ólafsdóttir
Elías: Sigurbjartur Sturla Atlason

Raddir: Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir, Rúnar Freyr Gíslason, Lísa Pálsdóttir, Viðar Eggertsson, Einar Sigurðsson og Aron Þór Valsson

 

Mynd með færslu
Vefritstjórn
Útvarpsleikhúsið: Skepnan
Útvarpsleikhúsið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi