Skemmtiferðaskip taka víða land utan hafna

31.07.2017 - 13:17
Mynd með færslu
Skemmtiferðaskip við Látrabjarg  Mynd: Jón Pétursson  -  RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Pétursson
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Pétursson
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Pétursson
Tollvörður telur að langstærstur hluti skipa, sem taka land utan hafna, hafi fengið tollafgreiðslu. Formaður landeigendafélags við Látrabjarg hefur áhyggjur af ferðum skipanna og vill að reglur um komur þeirra og ferðir verði skýrðar.

Fara víða í land eftir tollafgreiðslu

Eftir því sem skemmtiferðaskipum fjölgar hér við land færist það í aukanna að skipin taki land utan hafna. Til dæmis í friðlandi Hornstranda, Dynjandisvogi, við Látrabjarg og í Flatey á Breiðafirði. Sturla Páll Sturluson, tollvörður á Ísafirði telur að langstærstur hluti skipanna hafi þá þegar fengið tollafgreiðslu í fyrstu höfn. Í undantekningartilvikum fá skip leyfi til að koma við annars staðar áður en komið er til tollafgreiðsluhafnar en Sturla segir að til dæmis hafi tollgæslan á Ísafirði ekki veitt slíkt leyfi í sumar.  Skipstjóri franska skemmtiferðaskipsins Le Boreal sem fór í land á Jökulfjörðum um helgina án tollafgreiðslu taldi sig hafa slíkt leyfi. Eftir tollafgreiðslu í fyrstu höfn hefur tollgæslan ekki afskipti af skipunum. 

Fara undir Látrabjarg

Landeigendafélagið við Látrabjarg er meðal þeirra sem hafa lýst yfir áhyggjum af ferðum skemmtiferðaskipanna en við Látrabjarg fara skipin gjarnan undir bjargið og jafnvel er farið á léttabátum í land. Jón Pétursson er formaður Bjargtanga, landeigendafélagsins á Látrabjargi. „Við landeigendur höfum aldrei fengið neina ósk um samstarf við þessi skip, þeir hafa aldrei reynt að hafa samband við einn eða neinn. Þeir gera það sem þeim sýnist.“ Jón segir að skipunum fjölgi með ári hverju, nú séu þau fjögur sem fari að bjarginu allt að vikulega. Landeigendafélagið hefur sent umhverfisráðuneytinu bréf svo skýra megi reglur um ferðir skipanna, nálægð við bjargið og landtöku. „Og við erum bara núna að fá ráðuneytið til að hjálpa okkur að setja reglur um hversu nálægt þessi skip mega koma.“ Jón segir mikið í húfi: „Ef það verður mengunarslys þá er allt lífríkið undir.“

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Pétursson
Jón Pétursson, formaður Bjargtanga

Vinna frumvarp um stýringu á ferðaþjónustunni

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisráðuneytinu er nú unnið að frumvarpi um ný ákvæði í náttúruverndarlögum sem taka til stýringar á ferðaþjónustunni með hliðsjón af reglum um almannarétt. Stefnt er að því að leggja frumvarpið fram í haust. Þá vinnur Umhverfisstofnun að stjórnar- og verndaráætlun fyrir friðlandið á Hornströndum þar sem komur skemmtiferðaskipa eru meðal meginverkefna.