Skegg Dalís óhaggað eftir 28 ár í gröfinni

21.07.2017 - 10:43
(FILES) Photograph dated 05 May 1964 of Spanish worldwide known surrealist painter and inveterate eccentric Salvador Dalí, during his presentation of a jacket embroidered with glases at a press conference at the Hotel Maurice, in Paris. Events to mark the
 Mynd: EPA  -  EFE Files
Líkamsleifar listmálarans Saladors Dalís voru grafnar upp í gær vegna faðernismáls sem rekið er fyrir spænskum dómstóli. 28 ár eru síðan Dalí lést. Hann var þá talinn barnlaus en 61 árs kona telur sig vera dóttur hans. Dalí var einn af meisturum málaralistarinnar á 20. öld og gat sér frægð fyrir súrrealísk verk sín.

Annað sem Dalí var þekktur fyrir var yfirvaraskegg hans. Það var greitt upp þannig að það væri í stellingu sem lýsa má með vísum klukkunnar sem tíu mínútur yfir tíu. Narcis Bardalet sem bjó lík Dalís til greftrunar fylgdist með uppgreftri líkamsleifanna. Hann setti silkiklút yfir andlit Dalís áður en kistunni var lokað fyrir 28 árum. Nú tók hann klútinn frá vitum Dalís og sagði það kraftaverki líkast að sjá það sem blasti við. „Skegg hans var nákvæmlega í stellingunni tíu mínútur yfir tíu og hárið óraskað,“ sagði Bardalet.

Það var talsvert verk að grafa upp líkamsleifar Dalís. Þær lágu undir steinhellu sem er um það bil tonn að þyngd. 

Konan sem höfðaði faðernismálið segir móður sína hafa átt í sambandi við Dalí þegar hún bjó í hafnarbænum Cadaques þar sem Dalí bjó árum saman. Hún gæti átt rétt á fjórðungi af eignum Dalís ef sýnt verður fram á að Dalí sé faðir hennar. Eignirnar eru metnar á 400 milljónir evra, andvirði tæpra 50 milljarða króna.