„Skáld eigi alltaf að hafa frelsi til að tala“

Innlent
 · 
Bókmenntir
 · 
Leiklist
 · 
Morgunútvarpið
 · 
Menningarefni

„Skáld eigi alltaf að hafa frelsi til að tala“

Innlent
 · 
Bókmenntir
 · 
Leiklist
 · 
Morgunútvarpið
 · 
Menningarefni
11.01.2017 - 11:47.Ásrún Brynja Ingvarsdóttir.Morgunútvarpið
Valur Grettisson, blaðamaður og skáld, segist alltaf hafa viðurkennt að hugmyndin að skáldsögu hans og leikverki Góðu fólki hafi kviknað að einhverju leyti af umfjöllun af máli pars sem fjallað var um í fjölmiðlum fyrir nokkrum árum. Verkið sé hinsvegar skáldskapur og fjalli ekki um parið. Hann gagnrýnir RÚV fyrir að fresta þáttaröð sem unnin var í tengslum við sýninguna.

Bókin Gott fólk kom út fyrir tæpum tveimur árum og leikrit byggt á henni er nú á fjölum Þjóðleikhússins. Í verkinu er tekist á við spurningar um ofbeldi í samböndum fólks, hvar mörkin liggja, hvað ofbeldi sé og hvernig hægt sé að koma auga á það ofbeldi sem sést ekki með berum augum.

Í verkinu er fylgst með Sölva og Söru sem áttu í stuttu og stormasömu ástarsambandi. Nokkrum mánuðum eftir sambandsslitin bankar vinur þeirra beggja á dyr hjá Sölva og afhendir honum bréf, sem er upphafið á því sem er kallað ábyrgðarferli. „Ábyrgðarferli er aðferð fyrir þolendur og gerendur hvers kyns ofbeldis til þess að komast að nokkurs konar sátt. Hugmyndin gengur út á að þar sem að réttarkerfið hafi ekki tækin til þess að takast á við slík mál af sanngirni gagnvart þolendum þá sé þetta leið til þess að skila skömminni á þann stað sem hún á heima, og finna sátt fyrir þá sem að málinu koma“, segir í umfjöllun Víðsjár um leikritið. 

Rætt var við Val Grettisson í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Telur ekki þörf á að leita samþykkis

Gagnrýnt hefur verið að Valur hafi ekki leitað eftir samþykki frá fólkinu sem fjallað var um á sínum tíma. „Ég hugsaði auðvitað, á maður að láta allt þetta fólk vita sem fór gegnum ábyrðarferli. Ég hugsaði að það væri ekki við hæfi vegna þess að  um er að ræða skáldsögu, þó ég gangi nálægt fólki. Þessi saga gengur ekki aðeins nærri þessu fólki heldur öllum þeim sem hafa gengið gegnum ábyrgðarferlið. Þetta er að einhverju leyti tillitsleysi, að því leytinu til að ég spyr ekki leyfis. Þá lít ég svo að listin þarf ekki alltaf að spyrja leyfis. Stundum má rannsaka heiminn á sínum forsendum.“

Jákvæð og neikvæð viðbrögð

Valur segir viðbrögðin vera tvennskonar. Bæði hafi fólk stigið fram og lýst því hvernig sýningin hefði hjálpað sér. Aðrir gagnrýni aðferðir og geri ekki greinarmun á því að taka eitthvað úr samtímanum og gera skáldverk úr því annars vegar og þessu ákveðna máli hinsvegar. Að það sé verið að auka á þjáningar fólks.

„Málið snýst ekki um það. Það snýst fyrst og fremst um það hvort skáld megi leita í samtíma sinn. Hallgrímur Helgason gerði þetta sama, Einar Kárason og fjölmörg skáld.“ Þá hafi Mikael Torfason vitnað beint í dóm í sínu verki Harmsögu, sem byggt var á morðmáli í Kópavogi fyrir nokkrum árum.  

„Ég held að fólk sé móðgaðaðra núna því ég geng nærri rangri klíku,“ segir Valur. „Það er áhugavert að ég var að lesa viðtal við Steinar Braga, þá segir hann að illmennið úr bókinni Kata væri samsett úr tveimur mönnum, Jóni Stóra og Gillzenegger. Það var í fínu lagi, að búa til skrímsli úr þeim tveimur, það var í fínu lagi, en það er ekki í lagi þegar maður reynir að kryfja tilfinningalegar aðstæður í vitlausum hópi.“

Þáttaröð frestað

Þáttaröð sem Útvarpsleikhúsið gerði í samvinnu við Þjóðleikhúsið áttu að hefja göngu sína næsta laugardag en hefur verið frestað til að ná utan um umræðuna í framhaldi af sýningunni og hafa með í þáttunum. „Ef þeir gera það þá er það bara fínt. Ég skal trúa því þegar ég sé það. Það átti að útvarpa þætti næsta laugardag, það stendur ekki lengur til, hann er tekinn af dagskrá vegna orða einhvers manns sem hefur játað á sig ofbeldi á opinberum vettvangi. Maður er svona nett undrandi á eftirlátssemi RÚV hvað þetta varðar,“ segir Valur.  Honum þykir það hættulegt að ríkisstofnun taki þætti af dagskrá vegna „óljósrar og ómarkvissrar gagnrýni á Facebook.“

Valur segist ósammála því að smæð íslensks samfélags eigi að hefta tjáningarfrelsi listamanna. „Mér finnst að skáld eigi alltaf að hafa frelsi til að tala alveg eins og blaðamenn og aðrir...ég lít svo á að listin þarf ekki alltaf að spyrja leyfis, stundum má hún rannsaka heiminn á sínum forsendum. “ 

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Ábyrgðinni varpað á áhorfendur

Leiklist

Gott fólk á gráu svæði