Sjö milljarðar í jarðvarma í Evrópu

17.03.2017 - 16:00
Á næstu þremur til fjórum árum verður um 7 milljörðum króna varið til jarðvarmaverkefna víðs vegar í Evrópu. Talið er að um allt að fjórðungur húshitunar í Evrópu geti komið frá jarðhita.

Með samstarfsverkefninu Geotermica sem 13 lönd í Evrópu standa að er verið að stíga stórt skref í framþróun jarðhitanýtingar. 10 ríki í Evrópusambandinu: Þýskaland, Frakkland, Ítalía, Spánn, Portúgal, Holland, Belgía, Danmörk, Rúmenía og Slóvenía auk Íslands Sviss og Tyrklands taka þátt í verkefninu. Löndin sjálf leggja til 20 milljónir evra, Evrópusambandið bætir við 10 milljónum og svo er gert ráð fyrir að fyrirtæki og  fleiri leggi til 30 milljónir. Alls gera þetta því rúmlega 7 milljarða íslenskra króna.  Guðni  A. Jóhannesson, orkumálastjóri, segir að í tengslum við svokallað 20/20 sóknaráætlun, sem hrundið var af stað 2010, hafi mörg  Evrópulönd þá þegar lagt áherslu á jarðvarma.

Við sjáum líka núna að Evrópulönd eru að koma sterk inn í jarðhitanýtingu sem hugðu ekkert að því áður. Við getum tekið dæmi um Holland þar sem þeir eru að nýta jarðhita sem gefur ekki mjög háan hita en passar vel fyrir gróðurhúsin þar. Gróðurhúsaiðnaðurinn í Hollandi er á hraðri leið yfir í jarðhita.

Það er misskilningur að jarðvarma sé aðeins að finna á Íslandi. Íslendingar hafa hins vegar verið duglegir að nýta hann.
  

Það er hins vegar nýtanlegur jarðvarmi miklu víðar. Alltaf þegar maður byrjar að leita þá finnur maður meira. Það hefur veriði slegið á það að á milli 20 til 25 % af allri húshitun í Evrópu gæti komið frá jarðhita.

Guðni segir að ef þetta gengi eftir væri verið að tala um mikla minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Evrópusambandið stefnir að því að fyrir 2015 komi 80% allrar orku til húshitunar frá endurnýjanlegum orkugjöfum og meðal annar frá jarðvarma. Guðni segir að  löndin sem taka þátt í verkefninu sé þau lönd sem hafa nestan áhuga og möguleika á að nýta jarðhita. Um sé að ræða rannsóknarsamstarf sem byggir á eldra samstarfi á sviða jarðhita.

Meiningin er að löndin leggi til 20 milljónir evra í sameiginlegan rannsóknar og þróunarsjóð. Evrópusambandið leggur til 10 milljónir. Þá er hugsunin sú að framlög frá  iðnaði, sveitarfélögum og öðrum gæti verið um 30 milljónir. Þannig að við erum að tala um pakka upp á 60 milljónir evra.

Nánar er rætt við orkumálastjóra í Speglinum.

 

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi