Sjálfsali með kannabis, áfengi og skotfæri

14.07.2017 - 14:29
Byssukúlur í pakkningu.
 Mynd: Yosep Sugiarto  -  Freeimages
Fyrirtæki í Bandaríkjunum hefur búið til sjálfsala sem selur kannabis, áfengi og skotfæri. Sjálfsalinn notast við lífskennakerfi til að ganga úr skugga um að sá sem á í viðskiptum við sjálfsalann sé sá sem hann segist vera og megi kaupa þær vörur sem í boði eru.

Lífkennin eru könnuð með því að stinga fingri í skanna á sjálfsalanum. Þannig á að tryggja að aðeins sá sem stendur fyrir framan sjálfsalann geti átt í viðskiptum við hann og veitt vörunni afhendingu.

Sjálfsalann má sjá á vef BBC, þar sem einnig er rætt við einn þeirra sem stendur að framleiðslu sjálfsalanna. Þar segir hann fyrirtækið þurfa að fylgja fjölda reglna við framleiðslu sjálfsalans og að vissulega sé ekki ómögulegt að brjótast inn í sjálfsalann með tölvu.

Gunnar Dofri Ólafsson