Síldarvinnslan endurnýjar ísfisktogarana

15.06.2017 - 11:25
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Síldarvinnslan áformar að endurnýja allan ísfisktogaraflota fyrirtækisins á næstu árum. Þetta kom fram á aðalfundi Síldarvinnslunnar á föstudaginn var, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar.

Skipin sem verða endurnýjuð eru Barði NK, Gullver NS, Vestmannaey VE og Bergey VE. Tveir fyrrnefndu togararnir eru gerðir út af Síldarvinnslunni og voru smíðaðir á níunda áratugnum en hinir tveir, sem voru báðir smíðaðir 2007, eru gerðir út hjá dótturfélaginu Bergur-Huginn. 

Haft er eftir Gunnþóri B. Ingvasyni framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar að undirbúningurinn hafi þegar hafist á síðasta ári þegar Bjartur NK var seldur til Íran. Þá sé unnið að sölu á Barða NK til Rússlands. Á móti hafi nýr frystitogari, Blængur NK, verið tekinn í notkun á þessu ári, en það skip hét áður Freri RE. 

Gunnþór segir að við söluna á Barða myndist eitthvað tómarúm þar til nýtt skip kemur og verður leitast við að bjóða sjómönnunum sem lenda í slíku millibilsástandi störf á öðrum skipum félagsins eða í landi auk þess sem aðrar lausnir verði skoðaðar.

 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV