Sigmundur Davíð: Átök vonar og heiftar

08.04.2016 - 16:49
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson  -  RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði að ríkisstjórnin hefði verið farsæl og frammistaða hennar gæfi því ekki tilefni til vantrausts, raunar gæti enginn með rökum haldið öðru fram en að árangur ríkisstjórnarinnar væri framúrskarandi. „Stjórnarandstaðan getur vart bent á það svið þar sem ekki hafa orðið stórstígar framfarir á síðustu þremur árum. Þessi árangur varð ekki til af sjálfu sér,“ sagði Sigmundur Davíð.

Þetta kom fram í umræðum um vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar á ríkisstjórnina. Forsætisráðherrann fyrrverandi gaf lítið fyrir orð stjórnarandstæðinga að það skipti ekki máli um afdrif afnáms gjaldeyrishafta hverjir væru við völd. Stjórnarandstæðingar segðust nú vilja fara sömu leið og stjórnin en hefðu talað þvert á þann veg áður.

„Stjórnarandstaðan veit að fyrir þau eru staðreyndir ekki góð söluvara,“ sagði Sigmundur. Hann sagði að söluvörur stjórnarandstöðurnar væru reiði, heift og jafnvel hatur auk vonleysis og ótta. Þetta voru stjórnvöld sem voru meðvituð um það sjálf að þau byggðu vald sitt á tortryggni og reiði sagði Sigmundur Davíð um síðustu ríkisstjórn. Hann sagði að síðasta ríkisstjórn hefði að þessu leyti og mörgu öðru verið andstæða sinnar ríkisstjórnar sem hefði farið fram með von og bjartsýni. „Nú vill stjórnarandstaðan aftur treysta á reiði sem söluvöru.“ Þetta sagði hann að hefði fleytt mörgum langt en það hefði alltaf endað illa.

„Umfram allt eru þau að heimta völdin sín aftur, völdin sem þau hafa aldrei sætt sig við að hafa misst,“ sagði Sigmundur Davíð.

Skjaldborg um efnaða og stórútgerð

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, sagði vantraustið einmitt tilkomið vegna árangurs ríkisstjórnarinnar fyrir ríkasta fólk landsins og stórútgerðina. Hann sagði ríkisstjórnina hafa myndað skjaldborg um þessa aðila strax í upphafi starfstíma sína. „Þá þessa daga fann hún sinn takt og sitt göngulag.“

„Ríkisstjórnin hefur sýnt, og einstakir ráðherrar hennar, að þeir eru ekki traustsins verðir,“ sagði Ögmundur.

Við afnemum ekki gjaldeyrishöftin nema skilyrðin séu rétt, sagði Ögmundur. „Til hvers þarf að afnema höft, til að geta fært peninga inn og út,“ spurði Ögmundur um áherslu nýrrar ríkisstjórnar á að hún þyrfti að starfa áfram til að vinna að afnámi gjaldeyrishafta.