Síðustu skátarnir útskrifaðir

13.08.2017 - 11:09
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir  -  RÚV
Síðustu skátarnir sem veiktust af nóróveiru í Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni hafa verið útskrifaðir úr fjöldahjálparstöðinni sem var opnuð í Grunnskóla Hvergerðis. Stöðinni hefur því verið lokað og er nú hafin sótthreinsun í húsinu. Kennarar eiga að hefja undirbúning skólaársins á morgun og liggur því á að ljúka sótthreinsun húsnæðisins sem fyrst. Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Suðurlandi er vonast til að sótthreinsun ljúki ekki síðar en á morgun.

Flytja þurfti 181 skáta í fjöldahjálparstöðina eftir að nóróveiran kom upp á föstudag. Af þeim sýktust 63. Styrmir Sigurðarson, yfirmaður sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sagði að sjúkraflutningarnir væru þeir umfangsmestu sem hann hefði tekið þátt í á ferli sínum. Upphaflega var sjúkrabíll sendur af stað með lækni til að meta stöðuna. Síðan voru rútur notaðar til að flytja skátana í fjöldahjálparstöðina í Hveragerði. Ekki þurfti að flytja neinn á spítala.

Sótthreinsa þurfti Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni áður en hægt var að taka hana í notkun. Starfið gekk betur en búist hafði verið við og sneru fyrstu skátarnir þangað aftur í gærkvöld.