„Síðustu forvöð að spyrna við fótum“

23.06.2017 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Ágúst Ólafsson
Oddviti Langanesbyggðar segir síðustu forvöð að spyrna við fótum til að bjarga byggðinni á Bakkafirði. Þar var haldinn íbúafundur í gær til að ræða ástandið og hefja vinnu við nauðsynlegar aðgerðir.

Ástandið á Bakkafirði hefur smám saman farið versnandi síðustu ár og íbúum fækkað. Þar er í dag stopul vinna því Toppfiskur, stærsti vinnuveitandinn, hefur ekki haldið uppi reglulegri vinnslu. Engi verslun er nú rekin á Bakkafirði og engin kennsla verður í grunnskólanum þar næsta vetur.

Nauðsynlegt að standa saman um aðgerðir

„Þannig að ég myndi segja; vandinn er bara gríðarlega stór.“ segir Reynir Atli Jónsson, oddviti Langanesbyggðar. „Og eftir því sem maður talar meira við íbúa hérna og reynir að hlusta á þeirra sjónarmið þá eru eiginlega kannski síðustu forvöð að spyrna við fótum.“ Hann segir brýnast að koma upp stöðugri vinnu og auka þar fjölbreytnina. Þá verði íbúar og sveitarstjórn að standa saman um nauðsynlegar aðgerðir. „Ef við stöndum saman þá held ég að þetta geti alveg gengið.“

„Fyrsta skrefið í að spyrna okkur frá botninum“

Í gær hélt Langanesbyggð íbúafund á Bakkafirði þar sem einnig voru mættir þingmenn, fulltrúar Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Byggðastofnunar. Þar var ákveðinn hópur settur í að vinna áfram í málum sem rædd voru og koma með tillögur að lausnum.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Ágúst Ólafsson
Íbúafundurinn á Bakkafirði 22. júní

„Ég er bara mjög vongóður á að þetta gangi, ef ég á að segja alveg eins og er“ segir Reynir. „Og þá vonandi komumst við inn í verkefnið Brothættar byggðir, eða hvað sem verður, í framhaldinu. Þannig að þetta er allavega fyrsta skrefið í að spyrna okkur upp frá botninum.“