Siðferðilega mikilvægt að særa ekki fólk

11.01.2017 - 19:32
Hugleiða þarf mjög alvarlega hvort listræn ástæða sé fyrir því gera sögur af einkalífi fólks opinberar, segir siðfræðingur. Það sé siðferðilega mikilvægt að valda fólki ekki sársauka. Hart hefur verið deilt á sýninguna Gott fólk í Þjóðleikhúsinu og bloggari sagt að með því sé fjallað um verstu daga lífs hans. Hann hefur kallað bölvun yfir þá sem að sýningunni standa. 

Miklar umræður hafa spunnist um leiksýninguna Gott fólk í Þjóðleikinu en verkið byggir á skáldsögu Vals Grettissonar. 

Hugmyndina fékk hann þegar maður greindi frá því í á bloggsíðu sinni af hann hefði beitt kynferðisofbeldi og hefði undirgengist svonefnt ábyrgðarferli.

Bloggarinn hefur lýst mikilli óánægju með leiksýninguna og fyrirhugaða þáttaröð í Ríkisútvarpinu en leiksýningin er kveikjan að henni. Í nýlegri grein skrifar hann „Þjóðleikhúsið og Ríkisútvarpið, tvær gildar opinberar stofnanir, hafa tekið höndum saman um dagskrá um verstu daga lífs míns." Þá kallar hann fjórtán ára bölvun yfir leikritið og alla sem að því standi. Til stóð að fyrsti útvarpsþátturinn færi í loftið um næstu helgi en ákveðið hefur verið að vinna þættina frekar í ljósi viðbragðanna sem sýningin hefur vakið. 

Sjálfur sagði Valur í Morgunúvarpi Rásar 2 að hann hefði ekki beðið hlutaðeigandi um leyfi þar sem um skáldsögu væri að ræða. Ekki eigi að hefta tjáningafrelsi skálda. Þau eigi alltaf að hafa frelsi til að tala, eins og blaðamenn og aðrir. 

Þetta er ekki eina skáldverkið sem deilt hefur verið um og má nefna kvikmyndina Djúpið og skáldsöguna Koan við þúsund gráður. „Það vakna í svona málum margar siðferðislegar spurningar, meðal annars um friðhelgi einkalífsins,“ segir Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. 

„Friðhelgi einkalífsins snýst mjög mikið um það að sýna öðrum tillitssemi þegar við erum að umgangast þeirra persónulega líf. Þá er þetta spurning um almenna tillitssemi frekar heldur en að vera að setja þetta upp: hver hefur rétt til hvers,“ segir Salvör. Þetta snúist um tillitssemi og hvort verið sé að valda fólki sársauka. „Ef við erum að valda öðru fólki sársauka þá er auðvitað siðferðilega mikilvægt að við tökum tillit til þess, að við forðumst að særa fólk. Ef við vitum það að fólk vill ekki að þeirra saga sé sögð með einhverjum tilteknum hætti eða rifjuð upp, einhver erfið lífsreynsla sem fólk hefur gengið í gegnum - það eru mörg dæmi um þetta, þá er sjálfsagt að a.m.k. að hugleiða það mjög alvarlega hvort það eru einhverjar listrænar ástæður fyrir því að gera þessa sögu opinbera með þeim hætti sem er verið að gera eða nota nöfn fólks, eða ganga nærri sögu þess,“ segir Salvör.