Seyðisfjarðarskóla breytt í stóreyga skepnu

Innlent
 · 
Austurland
 · 
Myndlist
 · 
Menningarefni

Seyðisfjarðarskóla breytt í stóreyga skepnu

Innlent
 · 
Austurland
 · 
Myndlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
26.02.2017 - 21:34.Rúnar Snær Reynisson
Seyðfirðingar slökktu götuljósin í gær til að ljósskúlptúrar sem prýddu bæinn gætu notið sín betur. Á hátíðinni List í ljósi er því fagnað að vetrarmyrkri fer að linna og sólgeislar fara loks að ná niður í fjörðinn.

Bæjarbúar á Seyðisfirði settu hátíðina með því að senda ljósker á loft og að því loknu fóru sýningargestir um bæinn. Segja má þorpið hafi orðið eitt stórt sýningarrými fyrir listaverk og gjörninga ýmiskonar þar sem helsti efniviðurinn er ósnertanlegur. Þetta er í annað sinn sem List í ljósi er haldin og í ár tóku 20 listamenn þátt. „Þetta er sem sagt ljósahátíð og samfélagshátíð í rauninni og við fáum alla til að koma út í labbitúr og horfa á ljósalistaverk. Við sem sagt slökkvum öll ljósin í bænum og lýsum upp sérstaka staði sem okkur finnst áhugaverðir,“ segir Sesselja Hlín Jónasardóttir, framkvæmdastjóri List í ljósi.

Einna mesta athygli vakti listaverk sem varpað var á Seyðisfjarðarskóla sem breytti honum í vökula og forvitna skepnu með stór augu. Þetta verk er eftir Abby Portner frá Bandaríkjunum en hún sérhæfir sig í því sem kalla mætti myndkast (e.video mapping eða projection mapping) en þá er myndbandi varpað á hlut til að breyta honum. Út um hurð skólans kemur líka marglit tunga sem einnig er lýst upp.

„Þetta er mjög fallegur miðill, það er hægt að nota hann á svo margan hátt með vörpun, í skúlptúrum og hvernig farið er með myrkrið. Það sem er mest spennandi er hvernig það laðar að sér fólk og lýsir upp nóttina,“ segir Celia Harrison, viðburðahönnuður og listrænn stjórnandi.

„Við í rauninni ákváðum að hafa þessa hátíð á þessum tíma vegna þess að þetta er í fyrsta skipti sem sólin kemur upp fyrir fjallsins tinda í þrjá mánuði. Það er mjög mikið myrkur yfir veturna hérna þannig að það var svona startið á hátíðinni; að fagna komu sólar,“ segir Sesselja. 

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Ljósahátíð á Seyðisfirði að hefjast