Mynd með færslu
06.03.2017 - 11:50.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Helena Eyjólfsdóttir á nú yfir hálfrar aldar langan feril í söngnum en þetta er þó hennar allra fyrsta breiðskífa. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem var plata vikunnar á Rás 2.

Það er ekki leiðinlegt að velta þessum grip hennar Helenu Eyjólfsdóttur, en platan ber nafn söngkonunnar, á milli fingranna. Um mig leikur þægileg nostalgía verð ég að viðurkenna og það  vegna ýmissa hluta. Hér er ekkert Spotify, youtube, WAV-skrár, dropbox eða neitt af því sem fólk notar nú til dags vegna tónlistardreifingar. Bara geisladiskur með einföldu, snotru umslagi þar sem pappírsáferðin er ljúf. Meira að segja upplýsandi skrif eftir meistara Jónatan Garðarsson. Halló 2002! Og svo er það innihaldið. Það er ekki á hverjum degi sem manni berst plata eftir manneskju sem hefur verið að frá því að áður en dægurtónlistarmenning hófst að einhverju viti hér á Íslandi. Helena Eyjólfsdóttir var byrjuð að koma fram áður en rokkbyltingin varð árið 1954 og spannar ferill hennar rúm 60 ár! Magnað. Helena varð þekkt sem söngkona með Hljómsveit Ingimars Eydal og Hljómsveit Finns Eydal og hefur verið syngjandi síðan.

Reisn

Það er fáheyrð reisn yfir svona tiltæki og þetta minnir mig á plötu drottninga eins og Mavis Staples og Lorettu Lynn; söngkonur sem syngja með hárri raust á ævikvöldi og gera það með bravúr. Líkt er með þessa plötu hér, sem opnar á dúettinum „Saman á ný“ sem Helena syngur ásamt gömlum vini, Þorvaldi Halldórssyni. Einvalalið hljóðfæraleikara kemur annars við sögu, en mestan þáttinn eiga þeir Karl Olgeirsson, sem tekur upp, útsetur, semur og spilar og þeir Stefán Már Magnússon og Jón Rafnsson, sem gefur út á merki sínu JR Music.

Vítt

Tónlistarlega er farið vítt yfir, hér eru lög erlendra höfunda en einnig eiga íslenskir höfundar eins og Magnús Eiríksson, Jóhann G. Jóhannsson og Ingvi Þór Kormáksson lög. Helena tekst á við ballöður, blúsa og dramatískar stemmur og snarar öllu upp með glans. Helena þarf ekki að sanna eitt né neitt fyrir neinum, hljómplata þessi er hins vegar falleg gjöf til okkar sem heima sitjum.

Tengdar fréttir

Tónlist

Helena Eyjólfsdóttir - Helena

Tónlist

Í uppgjöfinni felst mesti sigurinn

Tónlist

Ofursvöl áferð og skuggaleg framvinda

Tónlist

Mýkt, melódíur og einlægur flutningur