Sex umsóknir um uppbyggingu í Hlíðarfjalli

15.05.2017 - 13:51
Mynd með færslu
 Mynd: www.akureyri.is  -  Akureyri
Sex umsóknir bárust um uppbyggingu skíða- og útivistarsvæðis í Hlíðarfjalli og eru tvær þeirra í nánari skoðun. Framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar segir að tillögurnar standist væntingar og gengið verði til formlegra viðræðna í lok mánaðarins.

Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar var í fyrra falið að kanna möguleika þess að breyta rekstrarfyrirkomulagi skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli, í því skyni að auka tekjur svæðisins allan ársins hring. Í kjölfarið var ákveðið að bjóða reksturinn út til einkaaðila. Auglýst var eftir tillögum að framtíðaruppbyggingu og rekstri svæðisins og rann umsóknarfrestur út þann 25. apríl síðastliðinn.

Sigmundur Einar Ófeigsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, segir í samtali við fréttastofu að sex tillögur hafi borist. Tvær þeirra hafi fjallað um heilsársstarfsemi á svæðinu, en það var eitt af meginmarkmiðum útboðsins, og eru þessar tillögur í nánari skoðun. 

Hann segir að tillögurnar líti vel út. „Þetta voru jákvæðar niðurstöður fyrir okkur og uppfyllir væntingar okkar ríflega,“ segir Sigmundur. Að svo stöddu vill hann ekki gefa upp hverjir það eru sem hafi skilað inn tillögum, en segir að það séu Íslendingar „með tengsl við útlönd.“

Fram undan eru viðræður við þá tvo umsækjendur sem þóttu standa upp úr. Þeir hafi sóst eftir nánari upplýsingum um það hvernig framkvæmdinni er háttað og segir Sigmundur mikilvægt að skilgreina það nákvæmlega. Þá má ætla að gengið verði til formlegra viðræðna við framkvæmdaraðila í lok mánaðarins.