Sendiráðsstarfsmanni vísað frá Nýja-Sjálandi

20.03.2017 - 04:23
epa05191902 An undated handout combo picture made available by New Zealand's Government on 03 March 2016 shows the Silver Fern Flag (L) and the current New Zealand flag (R) designs. New Zealand on 03 March 2016 began the final vote on whether to
 Mynd: EPA  -  NEW ZEALAND GOVERNMENT
Starfsmanni bandaríska sendiráðsins á Nýja Sjálandi var vísað úr landi vegna þess að lögreglan fékk ekki að taka af honum skýrslu í tengslum við alvarlegan glæp. Yfirvöld hafa ekki gefið frekari upplýsingar um glæpinn en fjölmiðlar á Nýja-Sjálandi segja að maðurinn hafi verið nefbrotinn og með glóðarauga þegar hann yfirgaf landið í síðustu viku.

Starfsmenn sendiráða njóta friðhelgi gagnvart lögum landsins þar sem þeir gegna embætti. Í alvarlegum málum er oft farið fram á að friðhelginni sé aflétt en bandarísk yfirvöld féllust ekki á það í þessu tilfelli. Nýsjálensk stjórnvöld eru alls ekki ánægð með viðbrögð Bandaríkjamanna og segjast hafa gert þeim ljóst að erlendir sendiráðsstarfsmenn sem brjóti af sér í landinu verði sóttir til saka á Nýja-Sjálandi. 

Lögreglan segist hafa verið kölluð út að Lower Hutt, í útjaðri Wellington, snemma dags 12. mars. Starfsmaður bandaríska sendiráðsins hafi þar átt hlut að máli. Þegar lögregla kom á staðinn hafi maðurinn verið á bak og burt og var enginn handtekinn. Rannsókn málsins nær ekki mikið lengra vegna friðhelginnar.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV