Selastofninn aldrei mælst minni

17.03.2017 - 15:57
Mynd með færslu
Selirnir í Húsdýragarðinum.  Mynd: Facebooksíða Húsdýragarðsin
Landselum hefur, á síðustu sex árum, fækkað um nærri þriðjung hér við land og stofninn hefur aldrei talið færri dýr. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hafrannsóknastofnunar. Einn skýrsluhöfunda segir ástæðu til að fylgjast betur með stofninum.

 

Í nýrri skýrslu Hafrannsóknastofnunar um ástand landselsstofnsins kemur fram að landselum hafi fækkað allt frá árinu 1980 þegar stærð stofnsins var fyrst metin.

„Stofninn er núna metinn 7.700 dýr og þetta er lægsta talan sem mælst hefur. Þegar fyrsta mælingin var gerð árið 1980 þá var stofninn 33 þúsund og síðast þegar hann var mældur þá var hann ellefu til tólf þúsund dýr. Þannig að það hefur orðið fækkun um þriðjung frá því síðast var mælt árið 2011,“ segir Sandra M. Granquist, hjá Selasetri Íslands, sérfræðingur hjá Hafi og vatni og verkefnastjóri talningar fyrir skýrsluna. 

Sandra segir að mesta fækkunin hafi orðið á árunum 1980 til 1990 - því þá hafi meira verið veitt af sel en nú. Stofninn hafi ekki náð að rétta úr sér síðan þá og rannsaka þurfi hvað veldur.  „Meðal annars viljum við skoða hvaða áhrif beinar veiðar hafa því það er enn verið að veiða landsel við Ísland og eitthvað af sel er að festast í net, þá helst grásleppu og þorskanet. Svo eru líka annað sem getur skipt máli eins og vistfræðilegir þættir. Við vitum að hlýnun sjávar getur haft áhrif á útbreiðslu tegunda sem eru mikilvægar fyrir seli. Það er til dæmis eitthvað sem er brýnt en erfitt að rannsaka.“

Sandra segir að vakta þurfi stofninn oftar. „Það er mjög dýrt að mæla stofnstærð landsela. Við gerum það með flugvél og það kostar peninga. Hingað til höfum við verið að mæla á fimm ára fresti en í ljósi fækkunar er mikilvægt að mæla oftar, og þá helst á tveggja ára fresti og það stefnum við á að gera í framhaldinu.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV