Segja Odinga vera raunverulegan sigurvegara

10.08.2017 - 14:48
Erlent · Afríka · Kenía
epa06134335 A supporter of the opposition leader Raila Odinga reacts as he holds up a sign that reads 'No Raila, No Peace' during a protest after Odinga announced that he rejects the provisional result of the presidential election announced by
 Mynd: EPA
Samband stjórnarandstöðuflokka í Keníu krafðist þess í dag að forsetaframbjóðandi þeirra, Raila Odinga, yrði skipaður forseti landsins þrátt fyrir að Uhuru Kenyatta, sitjandi forseti, hafi unnið kosningarnar á þriðjudag. Musalia Mudavadi, leiðtogi sambandsins, kvaðst hafa fyrir því leynilegar heimildir frá yfirkjörstjórn að Odinga væri raunverulegur sigurvegari kosninganna. Þetta segir í frétt AFP. Odinga hafði véfengt niðurstöður kosninganna strax daginn eftir að tilkynnt var um þær.

Tvær alþjóðlegar stofnanir gáfu hins vegar álit sitt og lýstu yfir trausti sínu á kosningaferlinu í Keníu, segir í frétt BBC. Fulltrúar Sambands Afríkuríkja og breska Samveldisins voru sátt við ferlið. Þá sagði Evrópusambandið að frambjóðendur ættu að taka ósigri sem eðlilegum hluta af lýðræðinu.

Blóðug átök í fersku minni

„Kerfið hefur brugðist,“ sagði Odinga stuttu eftir að tilkynnt var um úrslitin, „þetta er í raun bara tölvan, sem er að kjósa.“ Stuðningsmenn Odinga efndu fljótlega til óeirða, köstuðu grjóti og kveiktu í vegatálmum í vesturhluta landsins.

Spáð hafði verið hörðum og jöfnum slag milli þeirra Odinga og Kenyatta, en þeir bitust einnig um forsetaembættið 2013. Þá bauð Kenyatta sig fram í fyrsta sinn og hafði sigur, en Odinga tapaði sínum þriðju forsetakosningum. Hann er 72 ára og talið víst að þessi fjórða atlaga hans að forsetaembættinu verði jafnframt sú síðasta.

Stjórnmálaskýrendur hafa lýst miklum áhyggjum af eftirmálum kosninganna. Þær áhyggjur lúta ekki síst að viðbrögðum þess frambjóðanda, sem lýtur í lægra haldi. Eftir kosningarnar 2007 brutust víða út óeirðir, sem þróuðust út í blóðug átök milli andstæðra fylkinga, þar sem uppruni skipti ekki minna máli en stjórnmálaskoðanir. Yfir 1.100 dóu í þeim hildarleik og um 600.000 hröktust á vergang.