Segja fjölda óskráðra starfsmanna hér á landi

08.03.2017 - 22:20
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Alþýðusamband Íslands telur að jafnvel þúsundir erlendra starfsmanna séu í vinnu hér á landi án þess að vera skráðir nokkurs staðar. Þá séu dæmi um erlend fyrirtæki með starfsemi hér á landi án þess að vera skráð. Alvarlegustu brotin séu hreint vinnumansal.

 

Fram kom í féttum Rúv í gær að um 20 þúsund erlendir starfsmenn séu hér á landi, eða 10 til 11% af vinnumarkaðnum. Aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands segir að þar á bæ séu menn fullvissir um að þeir séu mun fleiri. Í vinnustaðaeftirliti sambandsins hafi komið í ljós nokkur fjöldi erlendra starfsmanna í byggingariðnaði sem séu hvergi skráðir.

„Bæði hjá erlendum verktakafyrirtækjum og starfsmannaleigum. Við höfum rekist á erlend ferðaþjónustufyrirtæki sem eru starfandi hér á landi með útlendinga og eru hvergi skráð og síðan náttúrulega vitum við að hér eru nokkur hundruð ungmenni í svokölluðum sjálfboðaliðastörfum, sem er náttúrulega ekkert annað en störf á vinnumarkaði þótt það sé ekki borgað fyrir þau sem að hvergi eru skráð heldur. Þannig að þetta hleypur á einhverjum hundruðum ef ekki þúsundunum,“ segir Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.

Hann segir alvarlegustu brotin í byggingariðnaði og ferðaþjónustu, þar sé þenslan mest. Hann segir unnið að því að koma uppýsingum um kjör og réttindi til starfsmanna sem brotið er á og líka með mjög öflugu vinnustaðaeftirliti, einkum í þessum greinum. Styrkja þurfi löggjöf og nefnir hann meðal annars reglur um keðjuábyrgð meðal starfsmanna erlendra verktakafyrirtækja sem vonast sé til að taki gildi fyrir vorið. 

„Þótt að mörgu leyti séu alvarlegustu brotin gagnvart þessum erlendum fyrirtækjum þá sjáum við mjög alvarleg brot líka af hálfu íslenskra fyrirtækja og í verstu tilfellum er þetta hreint vinnumansal.“

Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að nokkur þúsund erlendir starfsmenn eigi eftir að koma inn á vinnumarkaðinn til viðbótar og segir Halldór að endurskoða þurfi lagaramma, eftirfylgni og tryggja að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld vinni saman.
 

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV