Segja fjarveru ferjunnar Baldurs óásættanlega

09.05.2017 - 15:09
Mynd með færslu
 Mynd: Sighvatur Jónsson  -  RÚV
Á meðan ekki er hægt að tryggja samgöngur á landi er ferjan Baldur lífæð sunnanverðra Vestfjarða. Því er óásættanlegt henni sé kippt úr umferð, segir í bókun bæjarráðs Vesturbyggðar. Baldur leysir nú af Herjólf sem er í slipp og á meðan liggja ferðir Baldurs yfir Breiðafjörð niðri.

Ekki leystur af með bílaferju

Bæjarráðið í Vesturbyggð mótmælir þeirri ákvörðun að taka Breiðafjarðarferjuna Baldur úr áætlun. Því fylgi röskun fyrir íbúa og atvinnulíf, ferðirnar séu mikilvægar fyrir ferðaþjónustu í landshlutanum, sem og útflutning. Á meðan Baldur leysir Herjólf af siglir farþegaferjan Særún frá Stykkishólmi í Flatey en hún fer ekki reglulega yfir á Brjánslæk. Þá er Særún ekki bílaferja. 

Sýnd lítilsvirðing í samgöngumálum

Í greinargerð bæjarráðs segir að ákvörðunin um að taka Baldur úr áætlun sé lóð á vogarskálar þeirrar lítisvirðingar sem íbúum og rekstraraðilum á sunnanverðum Vestfjörðum er sýnd í samgöngumálum. Baldur gegni mikilvægu hlutverki þar sem ekki sé hægt að treysta á öruggar samgöngur á landi. Ekki megi mikið út af bregða svo settar séu þungatakmarkanir á Vestfjarðaveg númer 60 sem liggur frá sunnanverðum Vestfjörðum á Vesturland. Vegurinn sé löngu úreltur malarvegur. Ef kemur til þungatakmarkana komist flutningabílar engan veginn til og frá Vestfjörðum. Ferðum þeirra hefur fjölgað mikið með auknu laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum. Þá kemur fram í bókun bæjarráðs að ferðaþjónustan finni fyrir fjarveru Baldurs sem sýni sig í afbókunum á gistingu.

Vilja að ráðherra taki á málum

Fjórðungssamband Vestfirðinga tók fjarveru Baldurs einnig fyrir á síðasta fundi stjórnar sem krefst þess að samgönguráðherra taki á samráðsleysi samgöngustofnana við sveitarfélög og atvinnulíf þegar áætlun Baldurs um Breiðafjörð er skipulögð. Þá fer stjórnin fram á að auknu fé sé varið til verkefnisins, sé það skortur á fjármagni sem stendur í vegi fyrir tryggðum ferðum ferjunnar.