Segja að göt í klöpp hafi myndast vegna hótels

14.09.2017 - 12:32
Mynd með færslu
Mynd úr safni
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík sem veitti byggingarleyfi fyrir 5 hæða hóteli á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9. Nefndin segir ákvörðun byggingarfulltrúans slíkum annmörkum háða að það varði ógildingu hennar. Þetta er í annað sinn á þessu ári sem úrskurðarnefndin fellir úr gildi byggingarleyfi hótelsins.

Nágrannar fyrirhugaðs hótels við Vegamótastíg hafa lengi haft horn í síðu þess.

Í mars á síðasta ári kærðu þeir til að mynda breytingu á deiliskipulaginu. Þeir sögðu í kæru sinni að lífsgæði þeirra myndu rýrna sem og virði eigna þeirra og gera mætti ráð fyrir miklum hávaða og ónæði af fyrirhugðum hótelrekstri. Úrskurðarnefndin vísaði þeirri kæru frá.

Í mars á þessu ári kærðu nágrannarnir síðan þá ákvörðun byggingarfulltrúans að gefa út byggingarleyfi fyrir hótelinu. Útsýni þeirra myndi skerðast, birta minnka og ónæði skapast vegna hótelgesta, veitingastaðar og bílakjallara.

Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun byggingarfulltrúans hefði verið slíkum annmörkum háð að það bæri að ógilda hana.

Nýtt byggingarleyfi var gefið út á fundi byggingarfulltrúans í byrjun maí. Þar var gert ráð fyrir hóteli á efri hæðum hússins en veitingasal fyrir allt að 130 gesti á fyrstu hæð.

Nágrannirnir kærðu leyfið til úrskurðarnefndarinnar. Í kærunni segja þeir að að borað hafi verið útvegg á fasteign þeirra og að stór göt hafi myndast í klöpp undir húsinu. Málsmeðferð Reykjavíkurborgar hafi verið ábótavant þar sem ekki hafi verið rætt við þá um nauðsyn þess að bora í húsvegg þeirra. Ónæði muni skapast vegna endalauss umgangs ferðamanna og veitingastaðar með næturopnun sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í deiliskipulagi. Þá verði skortur á bílastæðum þar sem ferðamenn séu oftast á bílaleigubílum. 

Úrskurðarnefndin kemst að þeiri niðurstöðu að skort hafi upp á að byggingarleyfið væri í samræmi við  byggingarreglugerð. Tvö bílastæði fyrir fatlaða vanti fyrir veitingastað sem til stendur að verði á tveimur hæðum fyrir 130 gesti.

Þá telur nefndin að byggingarleyfið fari í bága við skilmála skipulagsins, bæði hvað varðar fjölda hæða og notkun kjallararýmis. Í skipulaginu hafi verið gert ráð fyrir einnar hæðar kjallara en samkvæmt uppdrætti sem byggingafulltrúi hafi samþykkt verði kjallarinn á tveimur hæðum.

Nefndin kemst því að þeirri niðurstöðu að ákvörðun byggingafulltrúans, um að gefa út byggingaleyfi, hafi verið slíkum annmörkum háð, að fella beri hana úr gildi.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV