Segist halda tryggð við Boko Haram

13.05.2017 - 06:33
epaselect epa05949369 Some of the 82 released Chibok girls meet Nigerian President Muhammadu Buhari (C) at the Presidential Villa in Abuja, Nigeria 07 May 2017. The president met the girls that were released in an exchange with Boko Haram Islamist
Nokkrar þeirra sem Boko Haram sleppti lausum í síðustu viku.  Mynd: EPA
Hryðjuverkasamtökin Boko Haram sendu frá sér myndband seint í gær þar sem Chibok skólastúlka lýsir yfir hollustu við samtökin. Hún kveðst hafa neitað því að vera leyst úr haldi þegar samningar náðust á milli nígerískra stjórnvalda og Boko Haram.

Myndbandið er þrjár mínútur. Þar greinir kona, sem sögð er vera Maida Yakubu, ein nemendanna sem rænt var í Chibok fyrir rétt rúmum þremur árum, frá því að hún haldi tryggð við Boko Haram. Hún ber svarta slæðu og heldur á byssu. Þrjár dökkklæddar konur sjást með henni á mynd, að sögn AFP fréttastofunnar. Hún segist ekki vilja fara heim til foreldra sinna þar sem þau lifi í villutrú. Hún vilji að þau taki Íslamstrú. 

82 stúlkum var sleppt úr gíslingu samtakanna í síðustu viku eftir samningaviðræður við stjórnvöld. Í stað þess var föngum úr röðum Boko Haram sleppt af stjórnvöldum. Garba Shehu, talsmaður forsetaembættisins, sagði við það tilefni að ein stúlka hafi neitað lausn. Hun væri gift einum hryðjuverkamannanna og telja sérfræðingar líkur á því að hún sé byrjuð að finna til samkenndar með gíslatökumönnum.

276 stúlkum var rænt í Chibok í apríl 2014. 57 þeirra sluppu úr haldi skömmu síðar. Af þeim 219 sem eftir voru hefur 106 verið sleppt eða verið fundnar. 
Um 20 þúsund manns hafa verið myrtir af vígamönnum Boko Haram frá því þau hófu vopnuð átök gegn nígerískum stjórnvöldum árið 2009. Í öðru myndbandi sem sent var út í gær kvað vígamaður, sem sagðist hafa verið sleppt í stað stúlknanna, að Boko Haram hafi tekið bólfestu í Sambisa skógi, og þau áformi sprengjuárás í höfuðborginni Abuja.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV