Segir Trump öllu skyni skroppinn

10.08.2017 - 02:51
epa06133272 (FILE) - A picture released by the North Korean Central News Agency (KCNA) on 29 March 2013 shows North Korean leader Kim Jong-un (sitting) convening an urgent operation meeting at 0:30 am on 29 March 2013 at an undisclosed location, in which
 Mynd: EPA  -  YONHAP / KCNA
Norður-Kóreumenn segja að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sé öllu skyni skroppinn og ófær um að skilja nokkuð nema valdbeitingu. Þetta kom fram í máli hátt setts hershöfðingja í Norður-Kóreuher, þegar hann fór óvenju ítarlega yfir áætlanir um mögulegar eldflaugaárásir á næsta nágrenni herstöðvar Bandaríkjamanna á Kyrrahafseyjunni Guam.

Harðorðar yfirlýsingar Trumps í kjölfar fréttar Washington Post af  því, að Norður-Kóreuher byggi nú jafnvel yfir tækni til að skjóta kjarnaoddum heimsálfa á milli, komu mörgum í opna skjöldu. Hótaði hann að láta eldi og brennisteini rigna yfir Norður-Kóreu með hætti sem heimsbyggðin hefði aldrei áður séð.

Þótti orðræða forsetans minna meira á það sem menn eiga að venjast frá ráðamönnum í Pjongjang en það sem komið hefur frá fyrirrennurum Trumps í Hvíta húsinu. Þó þóttust margir heyra enduróm af orðum Harrys Truman í aðdraganda kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí, en hann hótaði Japönum einmitt að láta eyðilegginguna rigna á þá af himnum ofan, „með hætti sem aldrei hefði áður sést á þessari jörð,“ ef þeir gæfust ekki upp, skilyrðislaust.

Viðbrögð Norður-Kóreumanna við reiðilestri Trumps voru að hóta eldflaugaárás á Guam og á fimmtudagsmorgun að staðartíma gerðist sá óvenjulegi atburður að Kim Rak-Gyom, hershöfðingi, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann lýsti boðaðri árás á landgrunnið umhverfis Guam í smáatriðum. Einnig lýsti hann vanþóknun sinni á Bandaríkjaforseta. „Það er ekki hægt að eiga uppbyggilegar viðræður við mann eins og þennan, sem er öllu skyni skroppinn, og einungis ýtrasta valdbeiting mun hafa áhrif á hann,“ segir í yfirlýsingu hershöfðingjans, sem lesin var upp í norðurkóreska ríkissjónvarpinu.

Áætlun Norður-Kóreuhers gerir ráð fyrir að fjórum langdrægum eldflaugum verði skotið yfir Shimane, Hírósíma og Koichi-héruð í Japan og að þær muni lenda um 30 til 40 kílómetra frá eyjunni Guam, eftir 17 mínútna og 45 sekúndna flug um 3.357 kílómetra leið. Stefnt er að því  að því að leggja fullmótaða og endanlega áætlun fyrir Kim Jong-Un um miðjan ágúst, segir í tilkynningunni, en aðgerðin sé hugsuð sem „alvarleg viðvörun til Bandaríkjanna“.

Bandaríkjaher er með töluverð umsvif á her- og flotastöð sinni á Guam, sem er í Vestur-Kyrrahafi. Þaðan leggja til að mynda hvort tveggja langdrægar sprengjuflugvélar og kafbátar reglulega upp í leiðangra til Kóreuskagans og hafsvæðisins þar um kring, yfirvöldum í Pjongjang til mikillar skapraunar.