Segir Trump ógna öryggi í Rómönsku Ameríku

12.08.2017 - 18:02
epa06133063 Venezuelan Foreign Minister Jorge Arreaza chairs a session of foreign ministers of the intergovernmental organization Bolivarian Alliance for the Peoples of Our America (ALBA) at the Yellow House in Caracas, Venezuela, 08 August 2017. The ALBA
Jorge Arreaza, utanríkisráðherra Venesúela.  Mynd: EPA  -  EFE
Vangaveltur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að ráðast inn í Venesúela með hervaldi eru til þess fallnar að draga önnur ríki í Rómönsku Ameríku og Karíbahafsríkja inn í deilur stjórnvalda og stjórnarandstöðu í landinu. Þetta er álit Nicolas Maduros forseta.

Jorge Arreaza utanríkisráðherra las upp yfirlýsingu frá Maduro forseta á fundi með fréttamönnum í Caracas í dag. Þar segir að afskipti Bandaríkjahers af málefnum Venesúela myndi varanlega kollvarpa stöðugleika, friði og öryggi í heimshlutanum. Trump sagði í gær á fréttamannafundi í New Jersey að hann væri að íhuga hernaðaríhlutun í Venesúela til að bregðast við ástandinu sem þar ríkir. Hann kallaði það algjöra og mjög hættulega ringulreið.

Talsmaður Hvíta hússins greindi frá því í dag að Maduro forseti hefði óskað eftir því að fá að ræða við Donald Trump símleiðis. Hann sagði að Trump vildi gjarnan ræða við Maduro ... þegar lýðræði hefði verið endurreist í Venesúela.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV