Segir þolinmæðina þrjóta við frekari frestun

06.03.2017 - 13:19
Friðbjörg Matthíasdóttir
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  RUV.IS
Ef framkvæmdum við Vestfjarðaveg verður enn frestað, þrýtur Vestfirðinga þolinmæðina endanlega. Þetta segir bæjarstjórinn í Vesturbyggð. Á samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir fé í framkvæmdina á þessu ári eins og til stóð en samgönguráðherra segir framkvæmdina þó vera í forgangi.

Vegagerð sem hefur lengi velkst um í kerfinu 

Mikil óánægja er með fyrirhugaðan niðurskurð á fé í lagningu Vestfjarðarvegar númer 60 um Gufudalssveit, eða Teigsskóg. Friðbjörg Matthíasdóttir er starfandi bæjarstjóri í Vesturbyggð, hún segir verkið skera sig úr vegna þess hve lengi það hefur velkst um í kerfinu: „Það að taka þetta verkefni út af samgönguáætlun á þessu stigi er í hrópandi mótsögn við allt sem sagt hefur verið og allt sem á undan er gengið. Við treystum því að þetta verkefni sé inni og að það verði boðið út síðasumars eða í haust.“

Mæðir mikið á vegunum

Friðbjörg segir að vegirnir um Gufudalssveit standist ekki kröfur sem gerðar eru til vega árið 2017. Mikið mæði á þeim árið um kring enda sé uppbygging í atvinnulífinu á sunnanverðum Vestfjörðum og sérstaklega fiskeldi. Daglega fer fjöldi flutningabíla um vegina en flutningabílstjórar hafa kvartað mikið yfir ástandi veganna. Þá telur Friðbjörg að niðurskurður á vegaframkvæmdum á Dynjandisheiði hljóti að vera misskilningur þar sem þær séu forsendur fyrir því að gengið verði frá Dýrafjarðargöngum sem eru enn á samgönguáætlun. Friðbjörg er bjartsýn á að fjármögnun Vestfjarðarvegar skýrist á næstu vikum en ráðherra hefur sagt að framkvæmdin hafi forgang þrátt fyrir niðurskurð. „Það sem gerist ef að þetta fer í enn frekari frestun þá verður þolinmæði manna endanlega búin.“