Segir slegnar pólitískar keilur

13.05.2017 - 18:28
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er ekki sammála  sjávarútvegsráðherra um að uppsagnir HB Granda og samdráttur hans í vinnslu á Akranesi kalli á aukna gjaldtöku í greininni. Heiðrún sagði í Vikulokunum á rás eitt í morgun að ekkert  sem hún eða stjórnmálamenn segðu sefaði sársauka þeirra sem misst hafa vinnu en staðan sé erfið. Umræða um gjaldtöku og  þróun í sjávarútvegi verði að byggjast á rökum ekki tilfinningum.

Við eigum ekki að blanda saman gjaldtöku í sjávarútvegi við ákvarðanir einstakra fyrirtækja, og það má ekki. Ég ætla bara að leyfa mér að segja; það er verið að slá ódýrar pólitískar keilur með svona umræðu. 

Heiðrún bendir á að síðustu tvö ár hafi mikið verið fjárfest í sjávarútvegi. 12 ný stór fiskiskip hafi bæst í flotann og fjárfestingarnar dreifist um allt land. Hún segir að þegar talað sé um það í lögum að tryggja eigi byggð í öllu landinu sé það ekki bara á ábyrgð fyrirtækjanna.

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi segir óvissu um hvernig eigi að túlka fyrsta ákvæði fiskveiðstjórnarlaganna um byggðafestu; ljóst sé að höfuðborgarsvæðið sé að soga til sín störf af landsbyggðinni. 

 Ég ætla ekki að hoppa á vagninn og segja að það eigi að fara að hækka fiskveiðagjaldið eða eitthvað slíkt. Ég bara tel að þetta sé eðlileg umræða sem við tökum, hvort þessi byggðafesta sé raunverulega marklaus í löggjöfinni eða ekki. 

sagði Sævar Freyr Þráinsson í Vikulokunum á rás eitt í morgun.