Segir skógarkerfil að leggja undir sig Fljótin

15.07.2017 - 11:28
Mynd með færslu
 Mynd: Trausti Sveinsson
Útbreiðsla kerfils er að verða stórvandamál í Fljótum ef ekkert verður að gert. Bóndinn á Bjarnargili segir að stökkbreyting hafi orðið á útbreiðslu plöntunnar þar í sumar. Hann vill að strax verði hafist handa við að uppræta kerfilinn áður en hann verði að óviðráðanlegu vandamáli.

Skógarkerfill er til vandræða víða um land enda afar ágeng planta og breiðist hratt út. Útbreiðsla kerfils í Fljótum hefur ekki verið vandamál fyrr en í sumar.

Stökkbreyting frá því í fyrra

Trausti Sveinsson, bóndi á Bjarnargili, segir að allt í einu sé kominn kerfill á stór svæði sem hann hafi aldrei fyrr verið á. „Ég tel þetta vera stökkbreytingu núna, frá því í fyrra og síðustu ár,“ segir hann. “Hann hefur fengið frið til að fella fræ og svo berst þetta með vindinum og er bara komið upp í fjallsrætur, dálítið langt frá vegi, og yfir öll engi þarna á stóru svæði." 

Mynd með færslu
 Mynd: Trausti Sveinsson
Kerfill kílómetrum saman við þjóðveginn í Fljótum

Kerfillinn að verða kominn um alla sveit

Og Trausti segist hafa af þessu miklar áhyggjur. Það séu nokkur ár síðan kerfils varð fyrst vart, á einum stað í Fljótum, en nú sé hann að verða kominn um alla sveit. „Þeir komu frá Náttúrufræðistofunni á Sauðárkróki og landfræðingur, þeir eru að reyna að kortleggja þetta, stærðína. Það á eitthvað að fjalla um þetta í sveitarstjórn Skagafjarðar á mánudaginn.“

Mynd með færslu
 Mynd: Trausti Sveinsson
Kerfillinn dreifir sér með skurðum í miðju ræktarlandi

Verði orðið óviðráðanlegt eftir nokkur ár

Hann vill að sveitarstjórn grípi inn í þetta. „Já, það verður að móta sér stefnu í þessum málum, þetta gengur ekki lengur. Það verður að gera eitthvað, þetta verður bara óviðráðanlegt eftir nokkur ár," segir Trausti.

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV